Kvartmilljón á mann

Greinar

Íslenzkar lánastofnanir hafa á undanförnum árum og verða á næstu árum að afskrifa töpuð útlán sem nemur tæpri kvartmilljón króna á hvert mannsbarn í landinu og tæpri milljón á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þetta er núgildandi Vesturlandamet í fjármálasukki.

Samanlagt hafa bankar landsins, sparisjóðir og aðrir sjóðir tapað rúmlega sextíu milljörðum króna. Þeir brúa bilið einkum með því að hafa útlánavexti hærri en tíðkast annars staðar og innlánavexti lægri en tíðkast annars staðar. Þeir afskrifa tapið með vaxtamun.

Þetta nægir ekki þeim stofnunum, sem verst eru reknar. Landsbankinn hefur til dæmis orðið að fá milljarða í ríkisstyrk til þess að laga stöðuna. Almennt dugir þó vaxtamunurinn einn til að halda lánastofnunum á floti. Þannig hangir lánakerfi þjóðarinnar á vaxtamun.

Annars staðar á Vesturlöndum, þar sem hrikt hefur í lánakerfinu, hefur verið stokkað upp og skipt um menn og vinnubrögð. Hér hefur enginn bankastjóri, sjóðsstjóri, bankaráðsmaður eða stjórnarmaður orðið að taka pokann sinn út af Vesturlandameti í óráðsíðu.

Tækifæri breytingar ríkisbankanna í hlutafélög var notað um daginn til að gera alls ekki neitt. Áfram sitja sem fastast sömu bankastjórarnir, er flestir voru ráðnir pólitískt á sínum tíma. Áfram er bankaráðsstólum og stjórnarstólum skipt milli pólitískra umboðsmanna.

Taldir eru sérstaklega hæfir til slíkrar setu þeir menn, sem harðast ganga fram í að rukka styrki til stjórnmálaflokka. Í núverandi taprekstrarkerfi þykir sérstaklega heppilegt, að sami maðurinn geti rukkað með annarri hendi og lofað bankafyrirgreiðslu með hinni.

Þetta þýðir, að allt er við það sama. Bankar og sjóðir munu áfram veita óskynsamleg lán og láta viðskiptamenn sína borga tjónið. Þeir, sem skulda, þurfa að borga of háa vexti. Þeir, sem eiga inni, fá of litla vexti fyrir. Þetta rýrir samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Ýmis stórfyrirtæki eru farin að sjá við þessu og taka sín lán beint í útlöndum, þar sem óráðsíugjaldið er mun lægra en hér. Vonandi leiðir þetta til, að erlendir bankar setji hér upp útibú, svo að fleiri geti fetað í fótspor þeirra, sem neita að borga fyrir svínaríið.

Við höfum séð það á öðrum sviðum, að koma erlendra aðila á þröngan Íslandsmarkað hefur lækkað kostnað þjóðarinnar. Þannig hefur tryggingafélag á vegum bifreiðaeigenda lækkað tryggingakostnað sinn og annarra um samtals mörg hundruð milljónir króna.

Þegar bankar og sjóðir eru komnir úr eigu ríkisins, má búast við, að þeir færi sig í átt til skynseminnar í vali á bankaráðsmönnum og stjórnarmönnum, bankastjórum og sjóðastjórum. Við vitum hins vegar ekki hvenær pólitíkusarnir þora að sleppa hendinni.

Dæmi Íslandsbanka sýnir þó, að vanhugsuð útlán eru ekki bundin við fjármálastofnanir ríkisins einar. Andrúmsloft bankakerfisins er hið sama, hvort sem er innan eða utan ramma ríkisvaldsins. Það er þessu andrúmslofti, sem þarf að breyta til að vernda peningana.

Ofan á furðulegum heimi íslenzka fjármálakerfisins trónir geymslustofnun fyrir aldraða stjórnmálamenn. Seðlabankinn hefur áratugum saman verið methafi ríkisins í umsvifamiklum rekstri utan um nánast ekki neitt, enda kemur einn bankastjórinn varla til landsins.

Hægt er að laga stöðuna á þrennan hátt, með innreið erlendra banka, með sölu ríkisbanka og loks á þann hátt, að íslenzkir kjósendur hætti að sætta sig við sukkið.

Jónas Kristjánsson

DV