Kveinað í heitum pottum

Greinar

Fyrir kosningar gaf Sjálfstæðisflokkurinn þjóðinni flugstöð við Keflavíkurflugvöll. Mikið var um dýrðir, þegar stjórnmálamenn og embættismenn stimpluðu í þjóðarsálina, hver væri gefandinn. Eftir kosningar hefur þjóðin smám saman verið að fá reikningana senda.

Þetta eru venjuleg vinnubrögð, sem hafa tíðkazt hér á landi áratugum saman. Stjórnmálaflokkarnir eru alltaf að gefa kjósendum eitthvað fyrir kosningar. Reikningar eru aldrei gerðir upp fyrr en að kosningum loknum. Þá kemur alltaf í ljós, að kjósendur borga.

Kröfluvirkjun hefur þá sérstöðu meðal gjafanna, að hún var svo dýr, að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið hafa ekki enn þorað að láta þjóðina borga. Krafla er enn að mestu ógreidd í skuld og bíður eftir greiðslugetu barna okkar.

Viðbrögð hins svokallaða almenningsálits eru ævinlega hin sömu. Í heitum pottum sundlauga og annars staðar, þar sem menn hittast á förnum vegi, er kvartað og kveinað út af framferði stjórnmálamanna. Svo kjósa kveinendur hina sömu leiðtoga í næstu kosningum.

Yfirgripsmesta og langdýrasta hneyksli stjórnmálasögu síðustu þriggja áratuga eru gerðir allra íslenzkra stjórnmálaflokka í hefðbundnum landbúnaði. Framsóknarflokknum er oftast kennt um þær, en aðrir flokkar bera þó á þeim nákvæmlega hina sömu ábyrgð.

Núverandi stjórnmálaflokkar, sem eiga fulltrúa á Alþingi, hafa annað hvort skipað ríkisstjórnir, sem hafa rekið stefnu móðuharðinda af mannavöldum í hefðbundnum landbúnaði, eða verið í stjórnarandstöðu, sem hefur heimtað meiri peninga í botnlausu hítina.

Kjósendum er að sjálfsögðu heimilt að verðlauna með stuðningi sínum hvern þessara flokka sem er. Hitt er undarlegt, að þeir skuli líka kvarta og kveina yfir því, sem þeir kalla yfir sig. Það sýnir starblindu þeirra sjálfra á eðlilegt pólitísk samhengi í lýðræðiskerfi.

Okkar þjóðskipulag reiknar með, að kjósendur taki þátt í stjórnmálaflokkum til að hafa áhrif á stefnu þeirra. Það gerir ráð fyrir, að þeir kjósi menn og stefnur, sem þeir telja mest til heilla. Og loks býst það við, að kjósendur láti ekki ljúga að sér nema einu sinni.

Íslenzkir kjósendur láta hins vegar gabbast hvað eftir annað. Í stað þess að sjá samhengið og taka afleiðingunum, safnast þeir saman í heita potta sundlauganna eða á öðrum stöðum og fárast út af eigin sök, hrista höfuðið út af leiðtogum, sem þeir hafa sjálfir endurkosið.

Síðasti samgönguráðherra hafði að lokaverkefni að gefa gæludýrum útboðsframkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll. Bráðum verður farið að taka við hann viðhafnarviðtöl sem aldraðan stjórnvitring. Og eftirmaður hans hefur ekki enn stöðvað gæludýrin.

Íslendingar þurfa ekkert að furða sig á, að þeir fái boruð göt í gegnum fjöll, ef einhverjum stjórnmálamanni dettur í hug að gefa kjósendum sínum göt. Þeir þurfa ekkert að verða hissa, þótt byggður sé forljótur alþingiskassi til að gleðja forseta sameinaðs Alþingis.

Kveinendur heitu pottanna geta sjálfum sér um kennt, þegar þeir kvarta um, að leiðtogar séu að pexa um, hver hafi sagt hvað í hvaða sandkassa. Eða öllu heldur í hvaða bíltúr, því að þeir hafa verið í tízku í sumar. Það eru kjósendur, sem halda pexurum uppi.

Svo glápa menn eins og naut á nývirki, þótt ríkisstjórnin sé í hefðbundnum helmingaskiptum að finna jafnvægi í bankagjöfum til Sambands og Pilsfaldaliðs.

Jónas Kristjánsson

DV