Kvennalisti og fjórflokkur

Greinar

Velgengni Kvennalistans og hugsanleg þáttaka hans í næstu ríkisstjórn eru á margra vörum þessa dagana, þegar hann hefur reynzt fylgisríkasti stjórnmálaflokkurinn í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri. Spurt er, hvað Kvennalistinn hafi umfram aðra flokka.

Þegar gömlu flokkarnir og Borgaraflokkurinn eru bornir saman við Kvennalistann, er ljóst, að grundvallarhugsunin er ólík. Allir flokkar aðrir en Kvennalistann túlka stjórnmál í stórum dráttum á hefðbundinn hátt og saka Kvennalistann um að vera ekki “í pólitík”.

Í þessum samanburði geta skipt miklu máli lítil atriði á borð við, að Kvennalistinn neitar að taka þátt í hinni árlegu veizlu alþingismanna og ýmsum öðrum fríðindum, sem hefðbundnir stjórnmálamenn telja sig eiga skilið. Kvennalistinn er ekki herfangsflokkur.

Þjóðin hefur á allra síðustu árum verið að átta sig á, að hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar hafa engan áhuga á að framkvæma stefnuyfirlýsingar sínar, en hins vegar gífurlegan áhuga á að taka þátt í að þjónusta hvers konar sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna.

Orka gömlu flokkanna og Borgaraflokksins fer í peningavaldastreitu á borð við skipan manna í bankaráð og aðrar skömmtunarstofur fjármagns og fyrirgreiðslu, kvótakerfi í atvinnuvegunum. Hver flokkur hefur sín gæludýr, sem þurfa margvíslegan forgang til að lifa.

Gæludýraþjónustan getur farið upp í sex milljarða króna á ári fyrir aðeins einn aðila, svo sem dæmi hins hefðbundna landbúnaðar sýnir. Í heild hefur fyrirgreiðslustefnan, sem gömlu flokkarnir og Borgaraflokkurinn reka, gert okkur að skuldugustu þjóð veraldar.

Kvennalistinn hefur sín gæludýr, en þau eru önnur, svo sem mæður, börn, námsmenn og fiskverkunarkonur. Ekki er vitað, hvort þessir mjúku hagsmunahópar verði þjóðfélaginu ódýrari eða dýrari en hinir hörðu, sem nú orna sér við elda hinna hefðbundnu flokka.

Ekki er heldur vitað, hvort Kvennalistinn mun, þegar á reynir, treysta sér til að taka snuðið af gömlu gæludýrunum. Til dæmis verður fróðlegt að vita, hvort landbúnaðurinn verður jafnfrekur á fóðrum fjármálaráðherra Kvennalistans og hann er hjá Alþýðuflokknum.

Eina leiðin til að rýma til við jötuna fyrir gæludýr Kvennalistans er að hrekja frá eitthvað af gömlu gæludýrunum. Og raunar þarf að reka í burtu fleiri en kalla má til, ef stefna hinnar hagsýnu húsmóður á að endurspeglast í hallalausum rekstri ríkisbús og þjóðarbús.

Rangt er að segja Kvennalistann ekki vera “í pólitík”, þótt hann sé í annarri pólitík en hefðbundnir valdastreitu- og goggunarflokkar stjórnmálamanna, sem láta eins og hanar á haug eða apar í dýragarði. Hins vegar má vefengja, að pólitík hans sé raunhæfari.

Skoðanakannanir sýna, að sífellt fjölgar þeim kjósendum, sem vantreysta málfundadrengjum sérhagsmuna og eru, að nokkurn veginn óséðu, tilbúnir að veita Kvennalistanum traust. Það verður svo síðari tíma mál, ef kjósendur telja listann hafa brugðizt sér.

Sennilega áttar Kvennalistinn sig á, að höfuðáhugamál samstarfsflokka hans í ríkisstjórn mundi verða að sýna kjósendum, að misráðið hafi verið að styðja listann. Þess vegna hljóta kröfur listans í stjórnarmyndunarviðræðum að verða afar harðar og harðsóttar.

Líklega leiðir gengi Kvennalistans ekki til þátttöku hans í stjórn á næstu árum, heldur til nánari samstarfs milli hefðbundnu flokkanna, -fjórflokksins svonefnda.

Jónas Kristjánsson

DV