Undir forustu nýnasistans Jörgs Haiders náði Frelsisflokkur Austurríkis tæplega 28% atkvæða á sunnudaginn í kosningum landsins til þings Evrópusambandsins. Haider hefur ekki farið leynt með, að ýmsar hugmyndir Hitlers hafi verið góðar, svo sem þrælkunarbúðir.
Stuðningur við Frelsisflokkinn kemur einkum frá fátæku fólki, sem óttast útlendinga, einkum nýbúa, og telur þá munu taka frá sér vinnunna. Það óttast líka samstarf við erlendar stofnanir, einkum Evrópusambandið, sem það telur munu hafa peninga af Austurríki.
Víðar en í Austurríki hefur komið fram, að kjósendur, sem óttast um stöðu sína í lífinu, eru hallir undir lýðskrumara, sem vara við nýbúum, fjölþjóðasamtökum, skattheimtu ríkisins og aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum. Þetta hefur birzt í ýmsum myndum á Vesturlöndum.
Margir muna enn eftir Glistrup í Danmörku og hliðstæðri hreyfingu í Noregi. Í Frakklandi er Le Pen enn í fullum gangi. Skrumið í Berlusconi á Ítalíu minnir um sumt, en ekki annað, á þessar hreyfingar. Oft hafa flokkar af þessu tagi náð töluverðu atkvæðamagni um tíma.
Kvíðinn í hugarfari kjósenda þessara flokka er hliðstæður kvíðanum í hugarfari þeirra kjósenda, sem nú styðja arftaka kommúnistaflokka í Austur-Evrópu, einkum í Sovétríkjunum, þar sem nýkommúnistaflokkurinn keppir við nýfasistaflokk Zhírínovskís um kjósendur.
Í Frakklandi hefur komið í ljós, að margt fátækt fólk, sem áður studdi franska kommúnistaflokkinn, hefur flutt stuðning sinn til Le Pens. Þannig færast kjósendur beint milli jaðranna í stjórnmálunum án þess að koma við á miðjunni, þar sem venjulegu flokkarnir eru.
Mikilvægt er fyrir vestræn lýðræðisríki að takmarka gengi stjórnmálaafla af þessu tagi með því að spilla fyrir þeim jarðveginum. Ábyrg stjórnmálaöfl þurfa að haga málum á þann veg, að ekki leiði til nagandi kvíða hjá fólki, sem ekki stendur traustum fótum í lífinu.
Miklvægt er, að atvinnuleysi fari ekki úr böndum og að tekjubil ríkra og fátækra mjókki fremur en breikki. Mikilvægt er, að skattheimta ríkisins af almenningi haldist í hófi og að ráðamenn sói ekki opinberum peningum. Stjórnmálin þurfa að gæta hagsmuna hinna kvíðafullu.
Festa af öllu tagi dregur úr ótta og kvíða. Við innflutning nýbúa þarf að gæta varúðar, svo að ekki leiði til spennu í þjóðfélaginu. Haga þarf málum á þann veg, að þeir samlagist þjóðfélaginu og séu ekki geymdir í sérstökum hverfum fátæktar, ofbeldis og atvinnuleysis.
Í Austurríki virðist jarðvegur kvíðans hafa magnazt á undanförnum árum. Einkum eru það nýbúar og aðhaldsaðgerðir ríkisins í tengslum við aðildina að Evrópusambandinu, sem koma almenningi í uppnám, auk þess sem margir minnast þar enn Hitlerstímans af angurværð.
Hér er minna um vandræði af þessu tagi en í flestum lýðræðisríkjum. Bilið milli ríkra og fátækra hefur löngum verið fremur mjótt. Bjartsýni hefur verið landlæg og atvinnuleysi lítið sem ekkert fram á síðustu ár. Nýbúar hafa komið fáir í einu og dreifzt um þjóðfélagið.
Engin hætta er á, að hér á landi rísi íslenzkur Haider eða Le Pen. Eigi að síður er mikilvægt, að við tökum eftir gengi slíkra stjórnmálamanna og lærum að þekkja jarðveginn, sem nærir gríðarlegt fylgi þeirra. Við getum komið í veg fyrir, að slíkur jarðvegur myndist hér.
Fyrst og fremst þarf fólk að geta treyst, að hagsmuna þess sé gætt af hálfu þeirra, sem stjórna landinu hverju sinni, svo að þorri fólks fari ekki að kvíða næsta degi.
Jónas Kristjánsson
DV