Kvikmyndagerð er orðin að meiri háttar ógnun við vestrænt nútímasamfélag. Erfitt er að komast undan linnulausum ofbeldissýningum, sem meira að segja er lætt að okkur í auglýsingum innan í friðsælum fréttatímum, þar sem fólk á bara von á Kosovo-fréttum.
Kvikmyndastjórar í Hollywood hafa um langt skeið reynt að yfirkeyra hver annan og sínar fyrri kvikmyndir með firrtara ofbeldi en nokkru sinni fyrr. Heimsmynd margra kvikmynda, sem auglýstar eru sjónvarpi, er ekki í neinu samhengi við veruleika daglegs lífs.
Draumaverksmiðjan er í vaxandi mæli að breytast í verksmiðju martraða, þegar ekki er unnt að komast hjá þeirri áleitnu hugsun, að geðveikt fólk sé að sníða kvikmyndir fyrir geðveikt fólk. Staðreyndin er hins vegar, að markaðurinn kallar á þessar gerðir kvikmynda.
Ógeðið er inni á gafli hjá fólki í kvikmyndasýningum og kvikmyndaauglýsingum í sjónvarpi, sem hefur tekið við uppeldishlutverki heimilanna. Ómótuð börn sitja lon og don fyrir framan nýja uppeldistækið og eru þá ekki að trufla önnum kafna foreldra á meðan.
Lengst af var erfitt að sýna fram á bein tengsli milli ofbeldis í kvikmyndum og afsiðunar fólks. Í seinni tíð hafa rannsóknir þó bent til, að ofbeldiskvikmyndir séu þáttur í flóknu orsakasamhengi, þar sem vopnaeign, fíkniefni og félagslegt samhengi skipta líka máli.
Fjöldamorð í bandarískum menntaskólum eru ein afleiðing vítahrings, þar sem ofbeldiskvikmyndir eru einn þátturinn af mörgum. Kvikmyndir, sem sýna afsiðaðan gerviheim á myndrænan hátt, stuðla að afsiðun hins raunverulega heims vestrænna lýðræðisríkja.
Þjóðskipulag okkar stendur og fellur með leikreglum, sem meðal annars fela í sér, að lög og réttur koma í stað ofbeldis. Þegar þjóðfélagið afsiðast smám saman, meðal annars fyrir áhrif kvikmynda, holast leikreglurnar að innan og síðast fellur þjóðskipulagið sjálft.
Norðmenn hafa gengið þjóða lengst í að reyna að verjast ásókn martraðanna frá Hollywood. Þeir hafa harðskeytt kvikmyndaeftirlit, sem klippir kvikmyndir og bannar. Enn harðari er Óslóborg, sem á sjálf tæplega þriðjung af öllu sætaframboði bíóa í landinu.
Á Íslandi hefur verið reynt að fara meðalveg, sem er algengur á Vesturlöndum. Kvikmyndir eru merktar með aldurstakmörkunum, sem óbeint minna á viðvaranir á tóbaksumbúðum og áletranir um erfðabreytingar, sem Evrópusambandið er að láta setja á matvæli.
Hins vegar vantar jarðveginn fyrir merkingar af slíku tagi. Börnin læra hvorki heima hjá sér né í skólum að lesa innihaldslýsingar og viðvaranir á umbúðum. Það gildir um þetta eins og önnur svið neyzlu, að almenningur er að mestu leyti viljalaus leiksoppur seljenda.
Ástæða er til að ætla, að háar tölur í aldursbanni hvetji suma frekar en letji til notkunar á ógeðslegum kvikmyndum. Bezt væri raunar að banna þær alveg, en það er ekki raunhæft, af því að þær munu smjúga um gervihnetti gegnum möskva siðalögreglunnar.
Neyzluþjóðfélög Vesturlanda munu drukkna í ofbeldiskvikmyndum, fíkniefnum og annarri kaldrifjaðri framleiðslu, nema þeim takist að ala upp neytendur, sem eru færir um að velja og hafna af allsnægtaborðinu, sem otað er að þeim af mikilli og vaxandi markaðstækni.
Að óbreyttu munu Vesturlönd hljóta sömu örlög og Rómaveldi og önnur heimsveldi fyrri tíma, að ná hátindi veldis út á við, en grotna að innan og hrynja.
Jónas Kristjánsson
að er að þeim.
DV