Kvörnin malar

Greinar

Þeim fjölgar hægt en örugglega, sem vilja breyta hinni opinberu búvörustefnu, taka upp innflutningsfrelsi og afnema niðurgreiðslur og styrki. Í árslok 1989 sýndu skoðanakannanir, að 30% þjóðarinnar vildu innflutningsfrelsi, en haustið 1993 voru 47% þeirrar skoðunar.

Þetta er mikil hugarfarsbreyting á fjórum árum. Með sama áframhaldi verða farnar að renna tvær grímur á stjórnmálamenn, þegar þeir búa sig undir að mæta kjósendum í lok næsta kjörtímabils. Kvörn réttlætisins malar hægt á þessu sviði, en hún malar örugglega.

Ekki er hægt að búast við endurbótum á núverandi ástandi meðan meirihluti þjóðarinnar styður núverandi hömlur, þótt sá meirihluti sé orðinn afar naumur. En búast mætti við, að ráðamenn létu sér nægja að vernda kerfið og létu hjá líða að magna það og herða.

Ágreiningur stjórnarflokkanna um búvörulög snýst að verulegu leyti um, hvort landbúnaðarnefnd Alþingis og formaður hennar mega taka ákvarðanir, sem sniðganga skuldbindingar, er fylgja aðildinni að alþjóðlegri fríverzlun og eiga að koma til framkvæmda eftir ár.

Við erum ekki ein um þessa hituna. Í Frakklandi hafa stjórnvöld ákveðið að minnka innflutning á fiski með því að beita nákvæmlega þeirri aðferð, sem íslenzk stjórnvöld hafa mest notað til að hindra innflutning á búvöru. Aðferðin felst í tilbúnum heilbrigðisástæðum.

Ef hin ízlenzku og frönsku vinnubrögð ná útbreiðslu í heiminum, munu þær þjóðir tapa mestu, sem mest eiga undir útflutningsverzlun og mest allra munu Íslendingar tapa. Í kjölfar hinna frönsku aðgerða fer þessi einfalda staðreynd senn að síast inn í heilabú íslenzkra kjósenda.

Sum erlend stjórnvöld ganga beinna til verks en hin frönsku. Kanadamenn hafa komið í veg fyrir sölu á framleiðsluvörum Hampiðjunnar og Marels. Þetta gera þau beinlínis í hefndarskyni fyrir innflutningsbann Íslendinga á vörum, sem framleiddar eru í Kanada.

Atburðir á við þessa sýna okkur, að við erum ekki ein um verndarhituna. Þeir sýna kjósendum, að með búvörustefnu sinni eru íslenzk stjórnvöld að fórna hinum miklu meiri hagsmunum sjávarútvegs, iðnaðar og verzlunar fyrir hina miklu minni hagsmuni landbúnaðar.

Þetta hefur hins vegar ekki enn síazt inn í heilabú alþingismanna. Líklegt er talið, að um það bil 50 af 63 þingmönnum styðji verndarsjónarmið formanns landbúnaðarnefndar. Meðal þeirra eru nefndarmenn úr sjávarútvegskjördæmum á borð við Vestfirði og Reykjanes.

Samkvæmt þessu styður aðeins 21% þingmanna frelsissjónarmið, sem hafa 47% fylgi með þjóðinni. Samkvæmt þessu eru þingmenn langt á eftir þjóðinni í skilningi á efnahagslegum hagsmunum þjóðarinnar. Þannig er Alþingi einn af myllusteinunum um háls þjóðarinnar.

Vaxandi sviptingar í utanríkisviðskiptum kunna að valda því, að tvær grímur renni á stjórnmálamenn, sem hingað til hafa alls ekki áttað sig á, að með stuðningi við verndarsjónarmið landbúnaðar eru þeir leynt og ljóst að vinna gegn útflutningshagsmunum sjávarsíðunnar.

Síðar er hugsanlegt, að kjósendur fari að átta sig á hagsmunum sínum sem neytendur og skattgreiðendur. Þegar almenningur hættir að láta teyma sig á asnaeyrunum í þágu þröngra sérhagsmuna, þá fyrst verða hin stóru þáttaskil í atvinnu- og hagstefnu stjórnmálamanna.

Við stöndum á þröskuldi þess, að minni hagsmunir víki fyrir meiri. Síðan mun hægt og bítandi koma að því, að sérhagsmunir víki fyrir almannahagsmunum.

Jónas Kristjánsson

DV