Kvótar í þrjá mánuði.

Greinar

Alþingi hefði átt að veita sjávarútvegsráðherra leyfi til kvótaskiptingar alls fiskafla aðeins til næstu þriggja mánaða. Alþingi hefði líka átt að setja ákveðin skilyrði til að hefta alræðisvald eins manns.

Dapurlegt var að sjá Alþingi afgreiða þetta mál á handahlaupum í tímahraki, einmitt þegar fjárlög og mál þeim skyld eiga að njóta þar óskiptrar athygli. Kvótaskipting alls fiskafla er ekki mál, sem má samþykkja í fáti.

Með því að leyfa kvóta í þrjá mánuði í stað eins árs hefði Alþingi unnið sér tíma til að fjalla í alvöru um málið eftir jólahlé. Þá hefði verið unnt að brjóta þetta flókna mál til mergjar á skynsamlegan og frambærilegan hátt.

Þriggja mánaða kvótar hefðu annars vegar verið miðaðir við hina nýju áætlun um ársveiðina úr helztu fiskistofnunum og hins vegar reynslu síðustu þriggja ára af hlutdeild fyrstu þriggja mánaða ársins í heildaraflanum.

Til viðbótar hefði Alþingi getað ákveðið sjálft, að kvótar röðuðust á skip í hlutfalli við afla þeirra á síðustu þremur árum, svo sem lagt hefur verið til, í stað þess að selja sjávarútvegsráðherra sjálfdæmi.

Um leið hefði Alþingi getað tekið fram í lögunum, að þessi þriggja mánaða kvótaskipting gæfi ekkert fordæmi um, að framvegis yrðu auðlindir hafsins gefnar útgerðum fiskiskipa í hlutfalli við afla skipa þeirra á undanförnum árum.

Í sérstakri grein laganna hefði mátt taka fram, að Alþingi áskildi sér rétt til að fara á allt annan hátt með auðlindirnar að loknu hinu þriggja mánaða umþóttunarskeiði með ofangreindu bráðabirgðafyrirkomulagi.

Ennfremur hefði Alþingi getað falið sjávarútvegsráðherra að leggja eftir áramótin fram þingsályktunartillögu um frekara framhald málsins hina níu mánuði, sem eftir yrðu ársins. Um þá tillögu hefði mátt ræða á þingi fram í marz.

Með slíkum hægari vinnubrögðum hefði Alþingi í senn tryggt skjóta afgreiðslu brýnasta þáttar málsins og ekki afsalað sér rétti til ítarlegrar umfjöllunar og endanlegrar ákvörðunar innan ramma þingræðisins.

Það væri svo verðugt verkefni Alþingis að taka málið upp að nýju, þegar það kemur saman í lok janúar, og gefa sér tíma fram í marz til að finna lausn, sem hlífir þorskinum og tryggir um leið hagkvæmasta sókn í hann.

Kvótar koma að takmörkuðu gagni, ef þeir snerta ekki þann kjarna málsins, að skipin eru of mörg. Dreifing kvóta til allra skipa tryggir öllum tap, því að bandarískir neytendur fást ekki til að borga útgerðarkostnað alls flotans.

Við verðum að skilja þá staðreynd, að á næsta ári verður aðeins hægt að gera út helming eða tvo þriðju fiskiskipaflotans. Það er ekki kvótum eða öðrum reglum að kenna, heldur of litlum þorskstofni í sjónum.

Kvótana ætti að selja á uppboði, þar sem beztu útgerðarfyrirtækin með traustustu bakhjarlana mundu eiga hæstu boðin. Þar með yrðu 220 þúsund þorsktonnin veidd með minnstum tilkostnaði og mestum þjóðararði.

Alþingi ætti að hafa reisn til að sjá niður úr yfirborðinu. og taka vitrænar hugmyndir á borð við uppboð á kvótum til alvarlegrar umfjöllunar í stað þess að kasta fjöregginu í fáti til lítt öfundsverðs einræðisherra.

Jónas Kristjánsson.

DV