Kvóti gengur í ættir

Greinar

Ríkisendurskoðun telur, að erfingjum sægreifa beri að greiða ríkinu erfðaskatt af kvóta þeirra. Þannig hefur opinber stofnun fyrir sitt leyti ákveðið, að kvóti fiskiskipa sé svo langvinnur, að hann geti gengið í ættir sægreifa. Hér hugsar stofnunin í áratugum og öldum.

Sýslumannsembættið í Reykjavík hafði óskað eftir álitinu vegna erfðamáls hjá skiptaráðanda. Ríkisendurskoðun byggir álitið á dómi Hæstaréttar frá árinu 1993. Dómstóllinn komst þá að þeirri niðurstöðu, að keyptur kvóti skips skuli talinn til skattskyldra eignarréttinda.

Í ljósi álits Ríkisendurskoðunar og niðurstöðu Hæstaréttar er lítið mark takandi á fullyrðingu formanns Framsóknarflokksins og hugmyndafræðings kvótakerfisins, að þetta feli ekki í sér eignarhald, af því að hvenær sem er sé hægt að taka afnotarétt kvótans af sægreifunum.

Ríkisendurskoðun, Hæstiréttur og formaður Framsóknarflokksins geta reynt að gera formlegan greinarmun á eign og afnotarétti. Fólki úti í bæ er hins vegar ljóst, að svokallaður afnotaréttur, sem gengur út yfir gröf og dauða, er orðinn að óformlegum eignarrétti.

Stuðningur Ríkisendurskoðunar við þetta þjóðhættulega mál er alvarlegri en frumvarp ríkisstjórnarflokkanna í desember síðastliðnum um, að sægreifum sé heimilt að veðsetja kvóta, þótt þeir eigi hann ekki formlega séð, heldur hafi bara af honum margnefndan afnotarétt.Að baki veðsetningarheimildar og erfðaskatts er peningafíkn fjármálaráðuneytisins, sem tekur gróða líðandi stundar fram yfir varanlega fjárhagsmuni ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar. Fíkn ráðuneytisins hefur sézt í ýmsum myndum á kjörtímabilinu, jafnvel í barnaskatti.

Á allra síðustu dögum þingsins skellti ríkisstjórnin óvænt fram tillögu að stjórnarskrárgrein, sem herti á þjóðareign Íslendinga á auðlindum hafsins. Þetta átti að heita efnd á gömlu loforði. Forsætisráðherra tók sérstaklega fram, að ekki væri ætlazt til afgreiðslu málsins.

Ríkisstjórn og Alþingi hafa staðið sig illa í málinu. Smám saman er afnotaréttur sægreifa af auðlindum hafsins að breytast í eignarrétt, meðal annars fyrir tilstilli opinberra stofnana, án þess að gerðar séu pólitískar ráðstafanir til gagnsóknar og endurheimta á eignarréttinum.

Þjóðin missir auðlindirnar með sama framhaldi. Þess vegna verður að stinga við fótum. Í stjórnarskrána þarf að setja skýrt og auðskiljanlegt ákvæði, sem gerir Hæstarétti og Ríkisendurskoðun ókleift að túlka afnotarétt kvótans á þann hátt, sem þessar stofnanir hafa gert.

Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar þarf um leið að túlka í sérstökum lögum, sem taki á tæknilegri útfærslu þess. Þar sé meðal annars lagt blátt bann við veðsetningu kvóta og erfðaskattheimtu af kvóta, hvort tveggja að gefnu tilefni. Þjóðin þarf að fá þessi mál á hreint.

Sennilega verða einhverjir til að lofa slíku í kosningabaráttunni og jafnvel í stjórnarsáttmála eftir kosningar. Reynslan af núverandi ríkisstjórn og þingmönnum þessa kjörtímabils er því miður ekki slík, að það lofi góðu um þjóðareignina hjá næstu ríkisstjórn og næsta Alþingi.

Mestar líkur eru á, að sægreifaflokkarnir tveir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafi eftir kosningar einir styrk til að mynda saman tveggja flokka ríkisstjórn. Hún mun hvar sem er og hvenær sem er taka hagsmuni sægreifa fram yfir hagsmuni þjóðarinnar.

Kvótasinnar þeirrar ríkisstjórnar munu hengja sig í orðhengilshátt um, að afnotaréttur, sem nær út yfir gröf og dauða, sé í rauninni alls enginn eignarréttur.

Jónas Kristjánsson

DV