Kyoto-andstaða linast

Greinar

Regnhlífarsamtök bandarískra stórfyrirtækja gegn Kyoto-sáttmálanum um takmörkun á losun svonefndra gróðurhúsalofttegunda hafa glatað áhrifamætti og yfirburðastöðu í umræðunni að undanförnu. Ýmis stórfyrirtæki hafa lagzt á hina sveifina síðustu misserin.

Stórfyrirtæki á borð við Intel, DuPont, British Petroleum og bandaríska landsvirkjunin American Electric Power eru hætt að styðja regnhlífarsamtökin Global Climate Coalition og eru farin að styðja Pew Centre, sem er helzta baráttustofnunin gegn losun lofttegundanna.

Forustumenn þessara fyrirtækja og annarra slíkra hafa aflað sér ytra eftirlits með útblæstri verksmiðja sinna og hafa að eigin frumkvæði sett sér markmið um minnkandi losun gróðurhúsalofttegunda. Þau telja þetta ódýrara en áður var talið og geta leitt til hagkvæmari rekstrar.

Um leið verða úreltar kenningar Bjørn Lomborgs í bókinni Hið sanna ástand heimsins, sem kom út á íslenzku fyrir nokkrum dögum á vegum Fiskifélags Íslands. Bókin kemur of seint til að þjóna málstað þeirra, sem vilja spara fiskiskipaflotanum breyttan vélakost.

Lomborg hélt því fram að hætti Global Climate Coalition, að markmið Kyoto-sáttmálans væru ekki nógu vel skilgreind og að þau væru of dýr. Of miklum fjármunum yrði varið til að verjast meintu vandamáli, sem alls ekki væri sannað að væri neitt vandamál.

Nú hafa þeir hins vegar orðið ofan á vestan hafs, sem telja, að losun gróðurhúsalofttegunda af mannanna völdum hækki hitastig á jörðinni, að það sé mannkyninu hættulegt og verði því mjög dýrt um síðir og að aðgerðir gegn þessari þróun séu ekki tilfinnanlega dýrar nú.

Eftir höfðinu dansa limirnir. Eftir kúvendingu bandarískra stórfyrirtækja verður erfiðara fyrir forsætisráðherra og utanríkisráðherra Íslands, svo og Fiskifélagið, Landsvirkjun, Reyðarál og aðra andstæðinga Kyoto-samkomulagsins að sá efasemdum um það hér á landi.

Þess er skemmst að minnast, að ekki er nema rúmur áratugur síðan ríki heimsins sömdu um bann við losun ózoneyðandi efna. Þá var spáð, að framkvæmdin yrði of dýr, en svo reyndist ekki. Markmið samkomulagsins náðust og nú vænta menn, að ózongötin fari að minnka.

Reynslan af ózonmálinu er svipuð og reynslan af öðrum aðgerðum stórfyrirtækja í þágu umhverfisins. Þær hafa ekki reynzt eins dýrar og andstæðingarnir héldu fram. Í mörgum tilvikum telja forvígismenn fyrirtækjanna, að reksturinn sé betri og ódýrari eftir aðgerðirnar.

Almennt er að ryðja sér til rúms í heiminum vistvæn stefna fyrirtækja og samtaka þeirra. Þeir aðilar, sem áður ollu umhverfi mannsins mestum skaða, eru nú fremstir í flokki þeirra, sem reyna að bæta umhverfið. Þessi stefnubreyting markar þáttaskil í umhverfisvernd.

Um leið vekur þetta athygli á einkennilegri stöðu mála hér á landi, þar sem stjórnarflokkarnir báðir og forustumenn þeirra hafa skipað sér í raðir helztu umhverfisóvina heims, reyna að troða upp á okkur óþörfum virkjunum og álverum og rægja Kyoto-sáttmálann við hvert færi.

Þarfara væri fyrir hagsmuni okkar, að landsfeðurnir styddu þróun í átt að sjálfbærum rekstri atvinnulífsins í sátt við umhverfið og framtíðina. Sjávarútvegur og landbúnaður okkar eiga því miður langt í land og því þarf að hefja réttan umhverfisferil sem allra fyrst.

Við eigum hvorki landið, hafið né loftið. Við höfum bara fengið þetta til varðveizlu fyrir hönd afkomendanna. Við höfum ráð á að haga okkur samkvæmt því.

Jónas Kristjánsson

DV