Lækjarbrekka er einn dýrasti veitingastaður landsins, töluvert dýrari en Holt, svo að þekkt dæmi sé tekið til viðmiðunar. Miðjuverð þriggja rétta máltíðar er 3.300-3.400 krónur, hvort sem valið er af seðli dagsins eða fastaseðli hússins.
Undantekningin er súpa og réttur dagsins í hádeginu á 990 krónur, sem þýðir 1.685 krónur á þrjá rétti og kaffi. Þetta tilboð er þó lakara en hliðstæð boð annarra staða af þessu tagi, af því að ekkert val er milli rétta, eins og er til dæmis í Holti.
Innpakkað
flugvélasmjör
Mer finnst einkennilegt, að svona dýr staður skuli hafa þann mötuneytisbrag, að bæði í hádegi og að kvöldi er smjörið með brauðinu borið gestum í flugvélapakkningu. Þetta atriði hefur árum saman skorið mér í augu. Mér finnst, að næsta skref muni vera, að maturinn komi í álpakkningu á plastbakka og hnífapörin í plastpoka með salti, pipar og tannstöngli.
Matreiðslan í Lækjarbrekku hefur líka valdið mér heilabrotum. Hún er fremur gamaldags og virðist hafa það beinlínis að stefnu. Til dæmis hafa súpur löngum verið afar þykkar og ógeðfelldar hveitisúpur. Ennfremur hefur eldunartími yfirleitt verið lengri en þykir hæfa hjá þeim, sem fara eftir reglum nýfrönsku matargerðarlistarinnar. Kannski hæfir gamaldags matseld gamaldags húsakynnum.
Ég hitti stundum kunningja mína í Lækjarbrekku, ekki af því að mér líki maturinn, heldur af því að kunningjar mínir hafa vafasaman matarsmekk. Þótt ég hafi þannig kynnzt staðnum betur en mörgum veitingahúsum, sem ég hef skrifað um, hef ég ósjálfrátt frestað því nokkuð lengi að skrifa um hann, sennilega til að ýta vandamáli fram í tímann.
Sennilega er ég orðinn of gamall og jákvæður til að vera alvöru krítíker.
Gestum líður
yfirleitt vel
Margt er gott um Lækjarbrekku, einkum umhverfi og andrúmsloft staðarins, sem haldizt hefur óbreytt frá því ég man fyrst eftir honum. Stofan í Bankastrætisenda hússins er einn notalegasti veitingasalur landsins.
Aldur hússins og smágerð hlutföll stuðla að þessu, svo og þægilegir stólar og skemmtileg húsgögn á borð við Borgundarhólmsklukku og gamalt skatthol.
Ennfremur er þjónusta mjög góð, fagleg og eftirtektarsöm. Það er fyrst og fremst eldhúsið, sem ég er að sumu leyti ósáttur við. Umhverfi og þjónusta valda því, að gestum líður yfirleitt vel, enda er Lækjarbrekka fremur vel sótt.
Ein súpa hússins er betri en aðrar. Það er franska lauksúpan. Kunningjar mínir eru líka ánægðir með sjávarréttasúpuna, en ég ráðlegg lesendum að láta rjómabættar súpur dagsins eiga sig, þar á meðal blaðlaukssúpur.
Léttreykt lambakjöt var nokkuð góður forréttur, borið fram með piparrótarrjóma og melónubitum. Hörpufiskur með hvítlaukssósu var fremur góður, en hafði farið örlítið fram yfir þann eldunartíma, sem gefur vöðvanum mesta mýkt. Rækjur voru góðar, en yfirgnæfðar af avocado og blaðlaukssósu, sem var að mestu með avocado-bragði.
Aðalréttirnir
mikið eldaðir
Fiskréttir staðarins eru undantekningarlítið nokkuð mikið eldaðir og gjarna kaffærðir í osti eða sósum. Ánægjuleg undantekning var smjörsteikt ýsa með skrúfupasta, sem ég fékk sem ódýran rétt dagsins í hádeginu. Hún var nákvæmlega rétt elduð og sérstaklega ljúffeng.
Steiktur karfi með hnetum og sesam í sinnepssósu var meira í stíl hússins, mikið eldaður og með yfirgnæfandi bragði af möndluflögum og sesamfræjum. Þetta var svo sem nógu frumlegt, en fiskurinn hvarf alveg í skugga þess, sem með honum fylgdi.
Kjötréttir eru að meðaltali nokkru betri en fiskréttir, þótt þeir séu fremur lengi eldaðir. Ef maður biður um þá hrásteikta, koma þeir miðlungi steiktir. Í eldhúsinu vita menn einfaldlega betur en þú, hvernig matur hentar þér. Ofan af þessu fara þeir alls ekki.
Smjörsteikt gæsabringa var rúmlega miðlungssteikt og þess vegna byrjað að verða of þurrt. Að öðru leyti var hún góð, borin fram í mikilli rauðvínssósu hússins og stöðluðu meðlæti kvöldsins, kartöflum, brokkáli og blómkáli.
Hreindýraorður voru líka mikið eldaðar, en samt ennþá alveg meyrar og bragðgóðar, bornar fram með bláberjasósu og stöðluðu meðlæti kvöldsins.
Ferskur ananas með rjóma var góður, borinn fram með passionsávexti og passionsís. Skemmtilegur var Hattur Betu ömmu, sem fólst í blönduðum ávöxtum ferskum og ís undir kexhatti með súkkulaðiskreytingu, góður eftirréttur.
Jónas Kristjánsson
DV