Lækjarbrekku hefur farið mikið fram. Matreiðsla er oft mjög góð, einkum á kvöldin, Þá er verðið líka hátt, um 3425 krónur fyrir þrjá rétti. Í hádeginu er hægt að fá súpu dagsins og val milli nokkurra aðalrétta á um það bil 895 krónur. En þá er matreiðslan stundum lakari.
Lækjarbrekka er rauðfjólublá í hádeginu. Há stólbök og dúkar undir glerplötum stinga í augu í birtunni og hæfa ekki ljósum og fíngerðum húsakynnum. Á kvöldin hverfur misræmið að nokkru leyti inn í rökkur kertaljósanna. Þá sést líka minna til smekkleysanna á veggjum, sundurgerðarlegra spegla og málverka í ýktum svifstíl.
Bezt er að fá sæti í götustofunni hjá flygli, borgundarhólmsklukku og saumuðu veggteppi, því að ónæðissamt er í fremri stofuni við skenkinn, og uppi á lofti er eins og að vera í sumarbústað í Norðurlandalegum furustíl.
Þjónusta er góð í Lækjarbrekku, glaðleg og menntuð. Staðurinn lyftist í hádeginu með tauþurrkum í stað pappírs, en dregst jafnóðum niður aftur með köldu smjöri í álpappír að hætti flugfélaga. Á kvöldin laðar píanisti að gesti. Þá er oft erfitt að heyra í sjálfum sér.
Matseðillinn í Lækjarbrekku er of langur og ruglingslegur. Þar er boðinn villibráðarseðill, sjávarréttaseðill, grænmetisseðill, barnamatseðill og kolagrillseðill, auk venjulegs matseðils. Ekkert eldhús af þessari stærðargráðu getur ráðið við slíka fjölbreytni í framboði.
Súpa dagsins í hádeginu var tær tómat- og grænmetissúpa í miklu magni, óspart og skemmtilega krydduð, vel heit. Með henni voru góðar brauðkollur volgar. Hrásalatið með aðalréttinum var á diskunum sjálfum og lyppaðist niður í heitum sósum. Djúpsteiktur steinbítur í léttu og þunnu orlydeigi var vel eldaður og mjúkur, með góðri og bragðmikilli sósu. Camembert-ostgljáður skötuselur dagsins var hæfilega eldaður, með góðri ostasósu.
Að kvöldi var í upphafi boðinn smakkréttur, reyktur fiskur, harpa og humar í sósu með áberandi bragði af reyktum fiski, góður matur. Þá var álpappírinn horfinn og smjörið borið fram í tveimur fallegum bollum, annar með venjulegu smjöri og hinn með hvítlaukssmjöri.
Tindabikkju-terrine var frumlegur réttur og góður, skata vafin um litla grænmetisteninga, borin fram með rauðri og sætri rauðrófusósu. Ristaðir humarhalar í blaðdeigskörfu með humarsósu voru mun betri en í Setrinu, stórir humrar í afar þunnu og stökku blaðdeigi.
Grænmetisréttir eru sérgrein Lækjarbrekku. Grænmetisforréttur var afar fallegt og litskrúðugt og fjölbreytt hrásalat með eggjum, alfaspírum og baunum, svo og þremur sósum. Grænmetisbaka með fersku salati, bakaðri kartöflu og sveppahvítlaukssósu var mjög gott. Bezt var hæfilega snöggsteikt grænmeti og góðar kajun- hnetur, framreitt með afar góðum hrísgrjónum.
Kolagrilluð lambasteik, pensluð hvítlauksolíu, með meyrum humar í skelinni, linum sveppum og kryddsmjöri, var rósrauð, lungamjúk og bragðgóð. Villigæsabringa með perum og góðri Jägermeister-sósu var hæfilega lítið elduð, örlítið rósrauð, þunnt sneidd, borin fram með léttelduðu grænmeti og grænmetisböku.
Konfektterta hússins var sæt og góð, með ís og jarðarberjasósu. Heit eplakaka með kanil var fögur og fín.
Jónas Kristjánsson
DV