Juan Mari Arzak í San Sebastian í Baskalandi tókst að gera mér gott úr saltfiski með súkkulaðisósu, en Lækjarbrekku heppnaðist ekki eins vel karfi með ávaxtasultu, sem kölluð var ávaxtasalat á matseðli. En karfinn var hóflega eldaður, hrísgrjónin fínt krydduð og fráhvarf frá hefðinni vel þegið.
Gestur utan af landi talaði hátt eins og í símann í gamla daga og þakkaði sérstaklega vel fyrir súpu dagsins, sem var uppbökuð hveitisúpa með miklu magni af fennikku, kölluð blaðlaukssúpa. Þetta er þjóðarsúpan sjálf, hvort sem hún heitir sveppasúpa eða eitthvað annað, sérkennileg leðja, sem menn hafa vanizt.
Þannig er matreiðslan í Lækjarbrekku, rambandi út og suður, góð, frambærileg eða vond eftir atvikum. Með annarri hendinni eru gerðar forvitnilegar tilraunir, en með hinni er farið eftir verstu hefðum.
Í forrétti eru boðnar ágætis lundasneiðar og hráar hangikjötssneiðar, en út á meðfylgjandi rauðlaukssalat var sett rauðrófusósa, sem sló réttunum út í rautt. Beðið var í aðalrétt um mildilega steikt lambakjöt, en það kom grátt á borð, of þurrt og of saltað, rétt eins og tíðkaðist fyrir áratugum á þjóðvegi númer eitt.
Vel heppnað var humarrisotto með vel fersku salati. Ofnbakaður saltfiskur var of saltur að hætti Íslendinga, undir stinna kartöfluflöguþakinu, sem kokkar læra í skóla, en sem betur fer ekki borinn fram með stökku grænmeti matseðilsins, heldur fersku salati, svo og tvenns konar olífumauki bragðmiklu.
Allir eftirréttir staðarins eru með ís, nema osturinn og skyrið. Þannig var meira að segja heitur crème brûlèe sykurskorpu-appelsínubúðingur borinn fram með súkkulaðiís og rann saman í ljóta blöndu. Skyrið var afar létt og gott, nánast eins og þeyttur rjómi, borið fram með of þéttu bláberja-ískrapi.
Pappírsþurrkur og álsmjör fylgja lágu hádegisverði hveitisúpu og aðalréttar á 1090 krónur, en tauþurrkur og tvenns konar smjör fylgja háu kvöldverði, þar sem þrír réttir og kaffi kosta um 4.070 krónur á mann.
Þjónusta er góð og lærð í Lækjarbrekku, velkist ekki í vafa um, hver hafi pantað hvað. Andrúmsloftið er notalegt, undir stjórn Borgundarhólmsklukku, sem slær á kortérs fresti og vekur upp angurværa fortíðarþrá, þegar slíkar klukkur ólu fólk upp fyrir einni öld í fullvissu þess, að heimurinn væri í föstum skorðum. Sem hann reyndist ekki vera.
Vinalegt hús á bezta stað bæjarins freistar útlendinga, sem verða ekki fyrir vonbrigðum, þegar þeir koma í gamlan og notalegan aðalsal, sem snýr að Bakarabrekkunni, með trégólfi og trélofti, þægilegum húsbúnaði og tilviljanaskreytingum.
Gerviblóm og græn vatnsglös á glerplötum yfir hekluðum dúkum eru hér við hæfi, alveg eins og ómerkar myndir og stórir speglar í svifstílsrömmum úr gylltum pappa. Of hávær dósatónlist spillir þessu andrúmslofti, en í horninu þegir flygill, sem orðinn er að skrautbar með heimsins bezta brennivíni, fínasta calvados.
Jónas Kristjánsson
DV