Lækjarbrekka

Veitingar

***
Brokkað á nýklassík

Lækjarbrekka er mest fyrir vel stæða ferðamenn, sem sumir lofa hana í hástert. Hún býður sérhæfða matseðla, dýra og spennandi, á 6000-7000 krónur, með þemum á borð við lunda, villibráð og lamb. Mér reyndist ofnbakað lamb vel, hæfilega rautt, borið fram með grófsöxuðu grænmeti og köku úr kartöfluþráðum að nýklassískum hætti.

Eldhúsið er nýklassískt, þegar það vandar sig og þegar það vandar sig ekki. Hugsað er um fagra uppsetningu rétta, sósur mikið notaðar, en minna hugsað um eðlisbragð hráefna. Ýmsir smáréttir tókust vel, til dæmis fjórir sjávarréttir, humar, rækja, hrár túnfiskur og grafinn lax, hvert með sinni sósu. Ennfremur reykt og grafið lamb, hvort með sinni sósu. Allt var þetta skólabókarlega fagurt og gott.

Lækjarbrekka feilar hins vegar í fiski. Koli dagsins var nýklassískt vafinn utan um humar og hörpufisk, borinn fram með sterkri humarsósu. Sjálfur kolinn var orðinn þurr og ofeldaður. Enn síðri var smjörsteikt smálúða, sennilega upphituð í örbylgjuofni, þurr og ofelduð. Hún var skrautlega upp sett ofan á spínatköku með djúpsteiktri kartöflustöppu, tómatflögum og auðvitað enn og aftur sterkri humarsósu í kring.

Þótt eldhúsið sé dæmi um brokkgenga nýklassík, eru aðrar aðstæður mjög góðar. Húsakynni eru notalega ‘kitsch’ fyrir aldraða gesti, með eftirprentunum í stórfelldum römmum á veggjum og hvítum tauþurrkum. Þjónustan er ein hin bezta hér á landi, ljúf og brosmild. Eini gallinn við aðstæður eru háværar glerplötur á borðum.

Skondnasti rétturinn var sveppasúpa dagsins í gamla stílnum frá því fyrir 1980, sem Íslendingar kunna svo vel að meta, mikið magn af rjómaðri hveitisúpu, sem var svo þykk og þung, að ég var nánast dasaður á eftir. Skyrið var hins vegar indælis nýfrönsk uppsetning með villiberjakrapi, góð landkynning.

Lækjarbrekka gefur nýklassísku húsunum ekki eftir í verði. Meðalverð aðalrétta er 3600 krónur og þriggja rétta máltíðar 6200 krónur.

Jónas Kristjánsson

DV