Villibráð í Lækjarbrekku
Lengst af hef ég ekki verið hrifinn af matreiðslunni í Lækjarbrekku, sem hefur fengið viðskiptavini sína fremur út á staðsetningu í Bankastræti 2 og gömul húsakynni en út á tilþrif í eldhúsi. Gömul hagfræðiregla segir, að þeir, sem hafa auðlind, gerast værukærir og sofna oft í skjóli hennar.
Þetta kann að vera að breytast í Lækjarbrekku. Um daginn kom mér þægilega á óvart, hversu vel tókst til með matreiðslu villibráðar. Þrenna af hreindýraorðu, sneiddri villigæsabringu og lunda var hóflega elduð og meyr, borin fram með villisveppasósu við hæfi. Í forrétt var boðin ágæt þrenna af reyktri súlu, gröfnum skarfi og andakæfu.
Kryddflóð á Primavera
Primavera hefur löngum verið vanmetin veitingastofa með léttum nútímastíl á ítölskum matreiðsluhefðum á annarri hæð í Austurstæri 9, fyrir ofan Rex. Nýlega varð ég samt var við bilunareinkenni í þjónustu og matreiðslu. Áhugalaus ungþjónn tók ekki við kápum gesta, þótt ekkert væri að gera, og svaraði ekki augnaráði eins og þjálfaði þjónninn kunni.
Kapers er frekt í bragði og yfirgnæfði einn meyrasta og bezta smokkfisk, sem ég hef lengi fengið. Sterkkryddað brokkálsmauk yfirgnæfði hárnákvæmt eldaðan þorsk. Majoram-krydd yfirgnæfði fínlega eldaðan skarkola. Í öllum tilvikum var undirstaðan hárfín í eldamennskunni, en heildardæminu spillt með óhóflegri kryddnotkun. Ég held, að tízkufyrirbæri, svonefnd “fusion” eldamennska hafa eitthvað verið misskilin í eldhúsinu á Primavera.
Gellur við Tjörnina
Veitingahúsið Við Tjörnina hefur látið Sommelier við Hverfisgötuna um að berjast við Listasafnið á Hótel Holti um forustuna í matargerðarlist á Íslandi og lætur reka á næsta gæðaþrepi fyrir neðan. Sjaldgæft er orðið að hitta á Rúnar Marvinsson í eldhúsinu. Áður fyrr voru fjarvistir hans harmaðar, því að varaskeifurnar jöfnuðust ekki á við meistarann. Núna hefur bilið minnkað, svo að sveiflurnar í gæðum milli heimsókna eru minni en þær voru áður. Tjörnin er orðin traustari.
Um daginn fékk ég enn einu sinni einkennisrétt staðarins, kryddlegnar gellur. Þrátt fyrir Rúnarsleysi voru þær frábærar eins og þær hafa beztar verið áður. Enginn veitingastaður landsins stenzt samanburð við Tjörnina í matreiðslu á gellum.
Ég fékk líka japanskan forrétt, ágætan fisk kryddleginn og hversdagslega Maki-rúllu, sem mig grunar, að hafi komið úr verksmiðju vestur á fjörðum. Núna bjóða allir sótraftar slíkar gervirúllur og þar á ofan eru komnir til skjalanna tveir staðir, Tveir fiskar og Sticks ‘n Sushi, sem bjóða alvöru Maki-rúllur. Enn og aftur sjáum við, að bágt er að standa í stað, meðan öðrum munar götuna fram eftir vegi.
Jónas Kristjánsson
DV