Frá Brjánslæk í Vatnsfirði um Krókavötn og Lækjarheiði til Trostansfjarðar í Arnarfirði.
Hrafna-Flóki Vilgerðarson byggði skála sinn á Flókagrund við Brjánslæk og má enn sjá ummerki þess mannvirkis. Hann missti búfénað sinn um veturinn vegna heyleysis í kjölfar óhóflegs veiðiáhuga og fluttist aftur af landi brott. Bratt er í Lækjarskarð og víða hrunið í götuslóðann. Gott útsýni er til Hornatáa og yfir Breiðafjörð af leiðinni upp í skarðið. Þegar komið er í Lækjarskarð sér vel yfir Arnarfjörð.
Förum frá Brjánslæk til norðvesturs um Jónsengi upp fyrir norðan Hestmúla og síðan vestur að Þverfelli. Þaðan til norðvesturs fyrir norðaustan Þverfell, austan við Búrfell og á Lækjarheiði austan við Krókavötn. Síðan norðnorðaustur um Lækjarskarð í 560 metra hæð. Síðan vestan við Hádegishnjúk norður um Gyrðisbrekkur niður Sunndal austan við Sunndalsá, í Trostansfjörð.
15,4 km
Vestfirðir
Nálægar leiðir: Lækjarskarð, Geirþjófsfjörður, Breiðaskarð.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort