Lækkun þar, hækkun hér.

Greinar

Sömu dagana og ríkið hækkar verð á benzíni hér á landi og heldur uppi verði á olíu er verð á benzíni og olíu að lækka á heimsmarkaði og rambar raunar á barmi verðhruns. Samt heldur verðlagsstjóri fram, að innlenda verðið stafi af hækkuðu innflutningsverði.

Allir skilja, að ríkið þurfi að auka skattheimtu sína af benzíni um 2,26 krónur á hvern lítra. Það er gamla sagan. Ráðherrunum finnst svo vænt um þjóðina, að peningar hrökkva ekki fyrir örlætinu. Næsta gjöf þeirra er sögð eiga að vera borun gata í ýmis fjöll.

Allir skilja líka, að olíufélögin þurfi að auka álagningu sína af benzíni um 68 aura á hvern lítra og af gasolíu um 49 aura á hvern lítra. Það er gamla sagan. Olíukóngunum finnst svo vænt um þjóðina, að þeir vilja gefa henni benzínstöð á hvert götuhorn landsins.

Hitt er verra, að örlætið skuli vera útskýrt með því, að innflutningsverð á benzíni hafi hækkað um 1,42 krónur á hvern lítra. Útreikningurinn þar að baki hlýtur að vera meira en lítið undarlegur, því að verð á olíuvörum hefur hvarvetna lækkað að undanförnu.

Til lítils er að halda fram, að benzínið í heiminum hækki alltaf á vorin, þegar bíleigendur taki fram bíla sína til að keyra út og suður. Við höfum aldrei, ekki einu sinni, orðið vör við, að benzín lækkaði á haustin, af því að bíleigendur heimsins rifi þá seglin.

Til lítils er að halda fram, að rekstur olíufélaganna sé svo erfiður, að þau þurfi óskiptan hagnaðinn af 49 aura lækkun á verði gasolíu. Við höfum aldrei, ekki einu sinni, orðið vör við, að rekstur olíufélaganna væri erfiðari en rekstur fiskiskipa okkar.

Liðinn er á norðurhveli jarðar vetur, sem var óvenjulega harður. Honum fylgdi líka langvinnt kolanámuverkfall í Bretlandi, sem jók olíuþörfina. Samt kom vorið á norðurhveli með nægum olíubirgðum undan vetri. Og í sumar má reikna með, að birgðir hrannist upp.

Afleiðingar þessa sjást á verðskráningu olíuvara í Rotterdam. Þar er sífellt verið að bjóða olíu undir hinu fasta samningaverði, sem víða tíðkast í olíuviðskiptum. Ef slík undirboð leiða til verðhækkunar á olíuvörum til Íslands, er það ekkert annað en brandari.

Spyrja má, hvort íslenzka viðskiptaráðuneytið láti sovézka viðsemjendur sína reikna þetta út fyrir sig. Kannski hinir síðarnefndu hafi fengið töluglöggt fyrirtæki til að gera þetta, svona á svipaðan hátt og tannlæknarnir fengu Hagvang til að reikna út taxtana.

Í þessum mánuði einum hefur Rotterdam-verð ýmissa tegunda af olíu lækkað um 1,9-2,2 dali á tunnu. Offramleiðsla á olíu hefur haldið áfram, þótt Saúdi-Arabía hafi dregið saman framleiðslu sína úr 4,4 milljón tunnu kvótanum í 2,5 milljón tunnur á ári.

Saúdi-Arabía hefur fórnað sér í örvæntingarfullri tilraun til að hindra verðhrun á olíu, meðan flest önnur ríki olíuhringsins Opec hafa farið langt fram úr kvóta sinum. En nú hefur Saúdi-Arabía ekki lengur efni á þessu. Ríkisfjármálin eru komin í steik.

Jamani, olíuráðherra Saúdi-Arabíu, hefur varað við verðhruni á olíu, jafnvel niður fyrir 20 dali á tunnuna, ef ekki haldist agi í kvótakerfi Opec. Þegar verðið hrynur, verður fróðlegt að heyra nýjar útskýringar ríkis og verðlagsstjóra á okurverðinu hér á landi.

Jónas Kristjánsson.

DV