Þegar nautakjötsmarkaðurinn hrundi í Bretlandi vegna kúariðunnar, hélt brezka heilbrigðisráðuneytið því fram, að kúariðan væri fólki skaðlaus. Það fór samt ekki eftir eigin ráðum, því að jafnframt lét það taka nautgripi af matseðli í sínu eigin starfsmannamötuneyti.
Í áratug hafa brezkir embættismenn og ráðherrar vitað um kúariðuna. Allan tímann hafa þeir reynt að halda henni leyndri. Afleiðingin er sú, að hundruð kúa hafa sýkzt. Kúariðutilfelli eru mörgum tugum sinnum fleiri í Bretlandi en samanlagt á meginlandi Evrópu.
Framganga brezkra embættismanna og pólitískra ráðherra hefur valdið trúnaðarbresti. Fólk trúir ekki yfirlýsingum valdamanna, sem eru uppvísir að því að halda sjúkdómi leyndum. Fólk trúir ekki yfirlýsingum kerfisdýralækna, sem hafa tekið kjöt af eigin matseðli.
Stjórnvöld í Bretlandi kenna öllum öðrum en sér um þennan trúnaðarbrest. Að venju byrjuðu þau á að kenna fjölmiðlum um að hafa framleitt hysteríu hjá almenningi. Síðan leituðu þau víðar fanga og kenndu stjórnarandstöðunni í Bretlandi um trúnaðarbrestinn.
Ef viðbrögð almennings í Bretlandi eru hastarlegri en málið gefur tilefni til, er sökin ekki hjá þeim aðilum, sem hafa komið upp um þögn og lygi stjórnvalda, heldur hjá þeim stjórnvöldum, sem hafa stundað þögn og lygi í heilan áratug. Ótíðindi eru ekki sögumanni að kenna.
Kúariðan í Bretlandi er skýrt dæmi um atburðarás, sem endurtekur sig í sífellu. Embættismenn eru kerfisbundið á móti því að veita almenningi upplýsingar um stöðu mála. Þeir vilja ekki, að báti sínum sé ruggað. Í því falla saman hagsmunir þeirra og ráðherranna.
Þegar leyndarhyggjan hefur leitt málið í slíkar ógöngur, að hún er greinilega orðin fjandsamleg hagsmunum viðkomandi þjóðar, fara heiðarlegir embættismenn að leka upplýsingum í fjölmiðla. Málið springur síðan framan í andlitið á ráðherrunum, sem ábyrgðina bera.
Hinir seku embættismenn og ráðherrar fara síðan undan í flæmingi og reyna að takmarka tjónið með því að gera á hverju stigi málsins minna úr því en efni standa til. Þetta misræmi magnar trúnaðarbrestinn, sem þegar er orðinn, og getur leitt til almennrar hysteríu.
Glæpsamleg meðferð brezkra embættismanna og stjórnmálamanna á málinu á undanförnum áratug hefur komið í veg fyrir, að beitt væri hliðstæðum aðgerðum og beitt er gegn kindariðu á Íslandi. Slíkar aðgerðir hefðu komið í veg fyrir trúnaðarbrest og markaðshrun.
Íslendingar hafa búið við kindariðu um langan aldur. Gripið er til harkalegs niðurskurðar í hvert skipti, sem hennar verður vart. Þess vegna myndast ekki trúnaðarbrestur hér á landi. Fólk borðar íslenzkt dilkakjöt án þess að hafa sérstakar áhyggjur af kindariðu.
Þar á ofan er hægt að flytja íslenzkt dilkakjöt úr landi. Heilbrigðisyfirvöld annarra landa vita um kindariðuna hér, en vita líka, að henni er haldið í skefjum með niðurskurði. Þess vegna leyfa þau innflutning íslenzks dilkakjöts, ef einhver kaupandi finnst að því.
Brezk yfirvöld hafa hins vegar forðazt niðurskurð í heilan áratug og misst tök á útbreiðslu riðunnar. Þau standa nú andspænis óhjákvæmilegum niðurskurði, sem verður hlutfallslega margfalt meiri en sá, sem íslenzkur landbúnaður hefur mátt sæta undanfarna áratugi.
Embættismönnum og ráðherrum um allan heim má nú vera augljós sá lærdómur, að leyndarstefna hefnir sín með trúnaðarbresti milli valdamanna og almennings.
Jónas Kristjánsson
DV