Lærdómsrík kosning

Greinar

Slæleg þátttaka Reykvíkinga í atkvæðagreiðslunni um flugvöllinn í Vatnsmýri stafaði ekki af áhugaleysi borgaranna eða skorti á kynningu málsins. Þvert á móti tröllreið umræðan þjóðfélaginu um nokkurra vikna skeið. Allir virkir borgarar gátu vitað, hvað var á seyði.

Fjölmiðlar tóku málinu opnum örmum, sérstakleg dagblöðin, sem birtu greinar ótrúlegs fjölda nafngreindra manna. Ruslpóstur kom inn um allar lúgur. Meira að segja lifnaði samgönguráðuneytið við til að senda öllum Reykvíkingunum bænarskrá um að halda vellinum.

Þannig kom í ljós, að fólk og stofnanir höfðu nægan áhuga á málinu til að ganga fram fyrir skjöldu, en allt kom fyrir ekki. Niðurstaða fékkst ekki, annars vegar af því að tveir af hverjum þremur borgarbúum komu ekki á kjörstað og hins vegar vegna jafnteflis fylkinganna.

Þetta er áfall fyrir milliliðalaust lýðræði, þá stefnu að láta borgarana ráða ferðinni beint í þverpólitískum málum. Eftir hina dýrkeyptu reynslu Reykjavíkurborgar um helgina er hætt við, að sveitastjórnir fari framvegis gætilega með þetta tæki og forðist það jafnvel alveg.

Úr því að Reykvíkingar komu ekki á kjörstað í jafn umdeildu máli og þessu, er ekki við þátttöku þeirra að búast í öðrum málum, sem ráðamönnum gæti dottið í hug að láta kjósa um. Eina leiðin er sú, sem víðast er farin erlendis, að láta greiða atkvæði samhliða kosningum.

Víða í Bandaríkjunum taka kjósendur afstöðu til margvíslegra mála heima í héraði á tveggja ára fresti, þegar almennar kosningar eru háðar. Þannig fást marktæk svör við brýnum spurningum. Aðeins Svisslendingar fást til að mæta á kjörstað utan almennra kosninga.

Borgarstjórn Reykjavíkur hefði betur frestað atkvæðagreiðslunni um flugvöllinn fram í sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Fimmtán mánaða frestun skiptir litlu í máli, sem hefur fimmtán ára gerjunartíma. Á þann hátt hefði náðst næg þátttaka til marktækrar niðurstöðu.

Borgarstjórinn í Reykjavík getur svo sem túlkað niðurstöðuna sem dauft umboð til að láta gera skipulag, sem gerir ráð fyrir, að flugvöllurinn í Vatnsmýri hverfi eftir fimmtán ár, en sú leið hefði raunar verið greiðfærari, ef hún hefði ekki borið málið undir atkvæði borgarbúa.

Þar sem búið er að kjósa einu sinni um flugvöllinn í Vatnsmýri, verður væntanlega ekki kosið um hann aftur. Pattstaða atkvæðagreiðslunnar í flugvallarmálinu heldur því áfram. Þeir, sem vilja halda vellinum, telja sig ekki hafa verið kveðna í kútinn í atkvæðagreiðslunni.

Einn ljós punktur var á atkvæðagreiðslunni. Hún sýndi, að fara verður varlega í að treysta á tæknina, rétt eins og Bandaríkjamenn máttu reyna í fyrra. Margir kjósendur létu undir höfuð leggjast að ýta á hnapp til að staðfesta kjörið og eyðilögðu þannig atkvæði sitt.

Í handvirkum kosningum þarf enga staðfestingu. Menn krossa bara og málið er búið. Í stafrænu kosningunni um helgina þurftu menn fyrst að merkja og síðan að staðfesta. Slíkt getur verið auðvelt í augum tölvuvædds fólks, en þarf alls ekki að vera öðrum ljóst, svo sem öldruðum.

Kjörstjórnin í Reykjavík féll í bandarísku gildruna. Ef stafrænni kosningu að hætti flugvallarkosningarinnar væri beitt í alvörukosningum, er hætt við eftirmálum, ef munur frambjóðenda reynist vera minni en fjöldi atkvæðanna, sem ógildast af tæknilegum ástæðum.

Gott var að fá aðvörun núna. Ef farið verður út í rafrænar kosningar hér á landi, þarf aðferðin að vera öllum skiljanleg, líka þeim, sem eru óvanir tölvum.

Jónas Kristjánsson

DV