Lærir Þorsteinn af Hermanni?

Greinar

Skortur formanns Sjálfstæðisflokksins á ráðherradómi er greinilega orðinn að varanlegu innanflokksböli. Síðast í fyrradag voru á miðstjórnarfundi flokksins ítrekaðar kröfur um, að hann tæki sæti í ríkisstjórn.

Nýjasti þáttur þessarar viðleitni er tilraun Morgunblaðsins til að stilla fjármálaráðherranum, Albert Guðmundssyni, upp við vegg og saka hann um fjárlagagatið til að veikja stöðu hans og auðvelda ráðherraskipti. Þurfti þó tíu ráðherra til að búa til svo stórt gat.

Helzti bandamaður Þorsteins í því, sem á ýmsum stöðum hefur verið kallaður “lífróður” hans til ráðherrastóls, er Steingrímur Hermannsson. Hann hefur margoft og árangurslaust lýst því yfir, að hann telji “mjög mikilvægt”, að Þorsteinn taki sæti í ríkisstjórninni.

Samstarf þeirra Steingríms og Þorsteins var um tíma mjög náið síðari hluta sumars og fram á haust. Þá sömdu þeir verkefnaskrá fyrir ríkisstjórnina og Þorsteinn kom opinberlega fram sem yfirráðherra Sjálfstæðisflokksins, ráðherra án ráðuneytis og blaðafulltrúi stjórnarinnar.

Til skamms tíma talaði Þorsteinn Pálsson eins og þungavigtarmaður í öllum mikilvægum umræðum á Alþingi um efnahagsmál. Og í byrjun nóvember sagði formaður þingflokks sjálfstæðismanna, Ólafur G. Einarsson, að einungis um það bil vika væri til stefnu fyrir uppstokkun.

Þetta hefur gerbreytzt á skömmum tíma. Vikan er liðin og margar aðrar. Þorsteinn tók ekki til máls í umræðu Alþingis um gengislækkunina. Og í fyrradag sagði hann í blaðaviðtali um fjárlagadæmið, að bann hefði “ekki hugmynd um, hvernig þessi mál stæðu”.

Hann bætti um betur og sagði: “Fjármálaráðherra fer með fjármál ríkisins. Þau eru ekki mitt mál.” Daginn eftir, það er að segja í gær, kom í ljós, að þessi leiðinda fjármál eru ekki bara honum óviðkomandi, heldur einnig öllu liði eyðsluráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á því rúma ári, sem Þorsteinn Pálsson hefur verið flokksformaður. Í upphafi töluðu hann og aðrir um hugsanlegan ráðherradóm hans eins og það væri einkaákvörðun, er hann sem formaður tæki yfir kaffibollanum einhvern morguninn.

Nú eru menn hins vegar farnir að skilja, að þingflokkurinn er allt annar Sjálfstæðisflokkur en landsfundurinn er. Ennfremur, að Sjálfstæðisflokkurinn sem landsfundur hefur ekkert yfir Sjálfstæðisflokknum sem þingflokki að segja. Nema þingflokkurinn vilji.

Þingflokkurinn var búinn að velja sína sex ráðherra áður en Þorsteinn varð formaður. Þessir ráðherrar sækja ekki stöðu sína til landsfundar, heldur beint til þingflokksins og óbeint til stöðu sinnar sem smákónga heima í héraði. Þeir ráða, en ekki Þorsteinn.

Sem ráðherra er hver þeirra fyrir sig valdameiri en formaður flokksins. Þeir hafa hver fyrir sig reynzt ófúsir að víkja fyrir Þorsteini og munu komast upp með það. Þess vegna er það meira af vanmætti en öðru, að Þorsteinn og Morgunblaðið eru að abbast upp á Albert fyrir fjárlagagatið.

Þegar Hermann Jónasson flokksformaður var utan stjórnar Framsóknar og Sjálfstæðis 1953-1956, skipti hann sér ekki af stjórninni og gerðist aldrei blaðafulltrúi hennar. Þegar hún svo hrökklaðist frá 1956, var hann hins vegar tilbúinn með “hræðslubandalag” og nýtt stjórnarmynztur. Kannski Þorsteinn geti lært af Hermanni?

Jónas Kristjánsson.

DV