Lærum af Ísfirðingum

Greinar

Stjórnmálamenn gömlu flokkanna og nýrra samfylkinga gömlu flokkanna á sameinuðum Ísafirði eru ekki verri en aðrir stjórnmálamenn í landsmálum eða sveitarfélagamálum þjóðarinnar. Samt eiga þeir skilið rassskellingu fönklistans í kosningunum um síðustu helgi.

Eins og aðrir hefðbundnir stjórnmálamenn í landinu eiga þeir gömlu ekkert erindi í valdastóla. Þeir eru hugmyndafræðilega innantómir framagosar eins og aðrir hefðbundnir stjórnmálamenn í landinu. Þeir eru gamalkunna tegundin, sem hefur gert þjóðina fátækari.

Við hressumst við að sjá ungt framhaldsskólafólk skáka hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum og nýjum samfylkingum þeirra. Við spyrjum, hvað sé hægt að gera á landsvísu, úr því að hægt er að ná mörg hundruð manna stuðningi og tveimur bæjarfulltrúum á Ísafirði.

Íslenzkir kjósendur hafa hagað sér aumlega á undanförnum áratugum. Þeir hafa vísvitandi kosið yfir sig ömurlega gasprara og vilja gera einn slíkan að forseta lýðveldisins. Sigur fönklistans á Ísafirði er ljós í þessu sameinaða svartnætti kjósenda og stjórnmálamanna.

Oftast hefur ástandið verið svo slæmt, að menn andvarpa og segja ekkert geta bjargað þjóðinni, nema skipt verði um kjósendur fyrst. Raunar er ótrúlegt, hvað íslenzkir kjósendur hafa leyft stjórnmálaflokkum og pólitíkusum að komast upp með áratugum saman.

Við erum að dragast aftur úr nágrannaþjóðunum og stéttaskipting er um leið að aukast innanlands. Fólk hefur í vaxandi mæli verið að flýja til útlanda frá lágtekjunum og stéttaskiptingunni, sem hér á landi stafa eingöngu af mannavöldum, en ekki af slökum gæðum landsins.

Eymdarbotn landsins er í sölum Alþingis, þar sem leikarar fara hamförum í ræðustóli, láta eins og þorpsfífl, semja ferskeytlur og haga sér eins og þeir séu gersamlega úr sambandi við umhverfið. Þeir blaðra klukkustundum saman án þess að finna kjarna neins máls.

Á Alþingi og í ríkisstjórn er talað um allt milli himins og jarðar og samdar um það ferskeytlur, en hvergi minnst orði á neitt sem máli skiptir, svo sem viðbrögð Íslendinga við óðfluga efnahagssamruna Evrópu og um stöðu landsins í breyttri heimsmynd 21. aldar.

Þegar tölvur og sími eru að búa til nýja tegund af upplýsingaþjóðfélagi og framleiða óendanlega athafnamöguleika á nýjum sviðum, efna stjórnmálamennirnir til hverrar nefndarinnar á fætur annarri til að skoða málið og framleiða um það doðrant á doðrant ofan.

Ekkert skortir á umfjöllun um upplýsingahraðbrautina, nema að ráðherrar yrki um hana fleiri ferskeytlur. Hins vegar er ekki gert það, sem gera þarf. Ekki er séð um, að bandvídd þessarar brautar sé á hverjum tíma mun rýmri en sem svarar notkun líðandi stundar.

Núverandi stjórnmálamenn eru upp til hópa ófærir um að búa þjóðina undir 21. öldina. Hingað til hefur verið talið, að þetta væri tröllheimskum kjósendum að kenna, umbjóðendum stjórnmálamanna. En glætan frá Ísafirði sýnir, að kjósendum er ekki alls varnað.

Íslenzkir kjósendur þurfa að læra af Ísfirðingum. Þeir þurfa að muna eftir pólitískum afglöpum umboðsmanna sinna og byrja að rjúfa sauðtryggð sína við hina hefðbundnu stjórnmálaflokka og forustumenn þeirra. Þeir þurfa að fara að gera tilraunir í stjórnmálum.

Þegar búið er að skipta út stjórnmálaflokkunum og pólitíkusunum er loksins komin forsenda þess, að unnt verði að lifa vel í landinu á 21. öldinni.

Jónas Kristjánsson

DV