Láglaun og hátekjur

Greinar

Hér býr láglaunaþjóð við millikjör í hátekjulandi. Miklar þjóðartekjur endurspeglast ekki að fullu í lífskjörum fólks og engan veginn í tímalaunum þess. Þverstæður þessar eru raunveruleiki Íslendinga. Þær greina okkur frá öðrum þjóðum í næsta nágrenni okkar.

Ekki er deilt um, að svonefndar þjóðartekjur eru hér á landi með því allra hæsta, sem þekkist í heiminum. Ekki er heldur deilt um, að mánaðarlegar tekjur fólks eru samt töluvert lægri en í nágrannalöndunum og að tímalaun eru langt frá tímalaunum nágrannaþjóðanna.

Þetta er íslenzkur raunveruleiki, sem vert er að minnast á baráttudegi verkafólks á mánudaginn. Þjóðartekjurnar skila sér verr í lífskjörum hér á landi en í nágrannalöndunum og langtum verr í tímakaupi fólks. Þetta hefur allt verið mörgum sinnum mælt í tölum.

Eðlilegt er, að spurt sé, hvers vegna þjóð, sem hefur sömu þjóðartekjur og nágrannaþjóðirnar, skuli hafi mun lakari lífskjör og langtum lægra tímakaup en þær. Þessari spurningu hefur oft verið svarað, en sjaldnast af neinu viti og allra sízt af hálfu verkalýðsrekenda landsins.

Augljóst er, að þjóðartekjurnar skila sér ekki til lífskjaranna eins greiðlega hér á landi og þær gera í nágrannalöndunum. Einnig er augljóst, að hér þarf töluvert lengri vinnutíma en í nágrannalöndunum til að ná sömu lífskjörum og þar ríkja. Hver er skýringin?

Munurinn felst í mismunandi hagkerfi þjóðanna. Hér á landi eru hinir hefðbundnu atvinnuvegir í meira mæli utan við markaðskerfið og innan opinbera geirans. Landbúnaðurinn hefur áratugum saman beinlínis verið ríkisrekinn og sjávarútvegurinn er núllaður með krónugengi.

Að vísu er landbúnaðurinn víðar ríkisrekinn en hér á landi. En hér hefur hann verið frystur í umfangsmeira ástandi en í nágrannalöndunum og er því hlutfallslega meiri byrði á hvern einstakling í þjóðfélaginu. Þessi frysting fortíðarinnar hefur kostað 400 milljarða í 20 ár.

Með millifærslum frá sjávarútvegi til þjóðfélagsins og frá þjóðfélaginu til landbúnaðarins er hluti aflafjár þjóðarinnar brenndur, svo að þjóðartekjurnar skila sér ekki í lífskjörum og enn síður í tímakaupi. Þetta er meginskýringin á mismun þjóðartekna, lífskjara og tímakaups.

Þessar millifærslur vega þungt hér á landi, af því að þær varða greinar, sem eru fyrirferðarmiklar hér. Í nágrannalöndunum eru hins vegar mun fyrirferðarmeiri aðrar greinar, sem eru í meira mæli innan markaðskerfisins, svo sem kaupsýsla, iðnaður og stóriðja.

Merkilegast við umræðuna um hið séríslenzka ástand er, að henni er haldið uppi af nokkrum hagfræðingum og öðrum utangarðsmönnum, en ekki af þeim, sem mestra hagsmuna hafa að gæta, launafólkinu í landinu, meintum talsmönnum þess og verkalýðsrekendum.

Það eru ekki formenn bandalags ríkisstarfsmanna, Verkamannasambandsins eða Alþýðusambandsins, sem benda á raunhæfa leið til að færa tímakaup og lífskjör upp að þjóðartekjum. Það eru ekki þeir, sem heimta, að þessum millifærslum í efnahagslífinu verði hætt.

Á mánudaginn mun fólk þramma Laugaveginn undir stjórn faglegra og pólitískra sauðarekstrarstjóra, sem enga lausn hafa að bjóða íslenzku láglaunafólki, af því að þeir vilja ekki fyrir nokkurn mun horfa á orsök þess, að miklar þjóðartekjur skila sér ekki í tímakaupinu.

Þannig er til raunveruleg þjóðarsátt um, að hér skuli búa láglaunafólk við millikjör í hátekjulandi til að halda uppi opinberu velferðarkerfi í efnahagslífinu.

Jónas Kristjánsson

DV