Láglauna-varðveizla

Greinar

Íslendingar reka umfangsmikla og kostnaðarsama fiskgeymslu um alla sjávarsíðuna. Við köllum hana fiskiðnað og teljum okkur trú um, að hún sé eins konar iðnaður, eins og í bílaverksmiðjum. Enda er hún rekin með flóknum færiböndum og hugvitsamlegum tækjum.

Svo skiljum við ekkert í, að fiskvinnslan er rekin með tapi og getur ekki borgað starfsfólki nógu mikil laun til að lifa í nútímaþjóðfélagi. Samt borgar atvinnugreinin yfirleitt mun minna fyrir fiskinn en hliðstæð samkeppnisfyrirtæki geta borgað í öðrum löndum.

Samningaviðræður samtaka verkamanna og vinnuveitenda sprungu einmitt á fiskvinnslunni. Þar geta vinnuveitendur sízt borgað hærri laun og þar þurfa starfsmenn jafnframt allra helzt á hærri launum að halda. Þverstæðan hefur nú hleypt vítahring af stað.

Verkfall er hafið hjá fiskvinnslukonum í Vestmannaeyjum og ástand er orðið ótryggt í fjölmörgum verstöðvum. Þetta virðist vera torleystur vandi, því að fáir fiskverkendur hafa eins góða afkomu og þeir, sem sömdu í Grindavík um 2000 króna mánaðaruppbót.

Bæta mætti margt í sjávarútvegi og þjóðfélaginu í heild, ef ríkisstjórnin félli frá fastgengisstefnu og hætti opinberri skráningu á gengi krónunnar. En það mundi aðallega gagnast fiskveiðunum, en miklu síður fiskvinnslunni, svo sem sjá má af samanburði við útlönd.

Fiskveiðarnar eru svo hagkvæmar og samkeppnishæfar, að þær blómstra, þótt þær selji afurðir sínar til innlendrar fiskvinnslu á lægra verði en til útlendrar fiskvinnslu. Í rauninni borgar sig fyrir þær, að skipin sigli með aflann eða afhendi hann í gáma til útflutnings.

Um leið er fiskvinnslan svo óhagkvæm og ósamkeppnishæf, að hún er rekin með tapi, þótt hún fái aflann á lægra verði en útlendir keppinautar. Á afkomu fólks og fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu er því eðlismunur, sem ekki verður skýrður með krónugengi.

Bent hefur verið á, að unnt er að auka hagkvæmni í fiskvinnslu. Áætlað hefur verið, að með hálfs milljarðs króna tæknivæðingu mætti spara nokkra milljarða á ári í greininni. Þetta er nauðsynlegt að gera, en leysir ekki vanda, sem á dýpstu rætur sínar annars staðar.

Vítahringur fiskvinnslu felst í, að hún er ekki fyrst og fremst iðnaður, er framleiðir verðmæti og há laun, heldur geymsla, er varðveitir verðmæti og lág laun. Afurðirnar, sem koma út úr frystihúsunum, eru í ýmsum tilvikum verðminni en afurðirnar, sem koma inn í þau.

Ísfiskurinn er í rauninni verðmætasta ástand aflans, því að kröfuharðir viðskiptavinir taka ísfisk fram yfir freðfisk eða annan verksmiðjufisk. Því er hagkvæmara að koma ísfiski í sem ferskustu ástandi á markað heldur en að breyta honum í varanlegt geymsluástand.

Þetta endurspeglast í kröfum um skattlagningu gámafisks í þágu fiskvinnslu. Það er í samræmi við hina útbreiddu skoðun hér á landi, að vaxtarbrodd skuli kæfa til að vernda kalvið hefðbundinna greina. Í því skyni er talað óvirðulega um ísfisk sem “óunninn” fisk.

Þegar slíkar kröfur ná ekki fram að ganga, er farið fram á, að ríkið komi til skjalanna og greiði hluta af launum starfsfólks, til dæmis með því að veita því sérstakan skattaafslátt. Þessar óskir, sem heyrast núna, varða veg fiskvinnslunnar í átt til félagsmálastofnunar.

Rætur kjaraátakanna í fiskvinnslu liggja í þróun tækni og samgangna í heiminum. Vandanum mun linna, er þjóðin lítur upp frá færiböndum fiskvinnslunnar.

Jónas Kristjánsson

DV