Frá Blæng og Laka um Lakagíga að Blágili.
Ekki má fara með rekstur þessa leið. Hægt er að fara hringleið frá skálanum í Blágili og verður þá hringurinn um 45 km. Farið er á jeppaslóð, svo að hægt er að hafa tvo hesta í taumi. Svæðið er einstætt náttúruundur. Héðan rann mesta hraun jarðarinnar á sögulegum tíma, Skaftáreldahraun 1783, sem breytti loftslagi jarðarinnar um árabil. Víða var landauðn í kjölfarið, mannfellir og hungurdauði. Var í alvöru fjallað um, hvort rétt væri að flytja eftirlifandi Íslendinga á Jótlandsheiðar. Gígarnir eru um hundrað talsins, renna sums staðar saman, en annars staðar eru misjöfn bil milli þeirra. Gosefnin eru svört og rauð,en víða eru gígarnir þaktir gulum og hvítum grámosa, svo að litbrigðin eru einstök.
Förum frá fjallaskálanum Blæng vestur með Blæng og áfram vestur fyrir sunnan Blæng. Norður á Stórasker og síðan til suðvesturs fyrir sunnan Lambavatn um Lakagíga og Úlfarsdal og loks austur að fjallaskálanum í Blágili.
33,4 km
Skaftafellssýslur
Skálar:
Blængur: N64 03.662 W18 08.884
Blágil: N63 58.001 W18 19.315.
Jeppafært
Nálægar leiðir: Laki, Leiðólfsfell.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort