Lakkríslandið

Greinar

Íslenzk lakkrísverksmiðja var reist í Kína fyrir tveimur árum. Aðalþingmaður og aðalfréttamaður Vestmannaeyja var við opnunina. Skömmu síðar fór íslenzki landbúnaðarráðherrann til Kína til að skoða framtakið, enda voru forvígismennirnir frá Norðurlandi eystra.

Ríkisstjórn Íslands hefur litið björtum augum til möguleika íslenzkra aðila til að græða peninga í Kína. Fyrir nokkrum mánuðum var komið upp sendiherra þar í landi. Hann hefur hafzt við í hótelherbergi í Beijing, en á nú að fá langþráð húsakjól í sænska sendiráðinu.

Margir hafa tekið eftir, að margt fólk býr í Kína, miklu fleira en í Bandaríkjunum og Japan. Svo virðist sem ríkisstjórn Íslands telji meiri möguleika vera í Kína en í Japan úr því að sendiráð í Beijing var tekið fram yfir sendiráð í Tokyo, sem lengi hefur verið á döfinni.

Utanríkisráðherra fór með fríðu föruneyti á Sagaklass til að ræða viðskiptamál við ráðamenn í Kína. Undir árslok fór svo forsætisráðherra með fríðu föruneyti í sama skyni, en í þetta sinn var föruneytið á almennings-farrými. Þá hafa þingmenn farið austur í fylkingum.

Kínverskir ráðamenn eru ánægðir með þessar heimsóknir, því að þeir eru að leita eftir atkvæðum til að komast inn í stofnanir á borð við Alþjóðlegu viðskiptastofnunina, þótt þeir uppfylli ekki nein skilyrði og sýni raunar ekki neina alvarlega tilburði í þá áttina.

Erlendir fjárfestar í Kína eru á sama tíma að átta sig á, að það er seintekinn gróði að gera hestakaup við Sumarliða póst. Valdamenn í Kína bera nefnilega nákvæmlega sömu virðingu fyrir útlendingum og peningum þeirra og fyrir innlendum andófsmönnum, það er enga.

Lögleysa er allsráðandi í Kína. Hún birtist í virðingarleysi fyrir mannréttindum og mannhelgi. Og hún kemur fram í kaupsýslu Kínverja. Þeir stela vestrænum hugverkum og hugbúnaði og framleiða eftirlíkingar í þrælabúðum á vegum hersins og einstakra valdhafa.

Lögleysan kom ekki bara fram í morðum á Torgi hins himneska friðar. Hún kemur líka fram í, að erlendir fjárfestar þurfa að rækta pólitísk sambönd, sem koma í stað vestrænna leikreglna. Þeir þurfa að liðka fyrir hverju skrefi með mútum í hefðbundnum þriðja heims stíl.

Þegar Kínverjar með sambönd sáu sér gróða í að reisa viðskiptahöll rétt við Torg hins himneska friðar, sögðu þeir McDonald’s veitingakeðjunni að hypja sig, þótt fyrirtækið hefði 20 ára leigusamning um staðinn. Undirritaðir pappírar eru nákvæmlega einskis virði í Kína.

Lehman Brothers fyrirtækið gat ekkert aðhafzt, þegar tvö kínversk fyrirtæki í eigu valdhafa hættu við að greiða því hundrað milljóna dollara skuld. Þetta eru tvö dæmi af mörgum. Það er engin leið til að leita réttar síns í Kína. Þar kemur geðþótti valdhafa í stað laga og réttar.

Íslenzka lakkrísverksmiðjan fór auðvitað á hausinn þegjandi og hljóðalaust, enda minni bógar þar á ferð en hjá McDonald’s og Lehman Brothers. Þannig verður líka um aðra íslenzka fjárfestingu í kínverskri framtíð. Hún mun öll hverfa og ekki ein króna skila sér í arði.

Ástandið er allt annað handan sundsins, í Japan. Þar gilda að mestu leyti lög og reglur að vestrænum sið, enda hafa mörg íslenzk fyrirtæki gert það gott í viðskiptum við Japan. Þar er miklu meira en nægur markaður fyrir íslenzk fyrirtæki. Þar ætti sendiherra okkar að vera.

Það er ekki nóg að dást að mannfjölda. Það þarf líka lög og rétt. Okkur dugar minna en fjölmennasta ríki heims, hvort sem við viljum selja lakkrís eða fisk.

Jónas Kristjánsson

DV