Af fjölmennri þingmannahjörð Sjálfstæðisflokksins greiddu aðeins Eyjólfur Konráð Jónsson og Albert Guðmundsson atkvæði með tillögu Bandalags jafnaðarmanna um sölu ríkisbankanna. Er sú sala þó á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og nefndar, sem formaður flokksins átti sæti í.
Afdrif tillögunnar um sölu ríkisbankanna er aðeins eitt af mörgum dæmum um niðurlægingu þingflokks sjálfstæðismanna. Í þeim hópi eru sárafáir menn, sem hafa einhvern áhuga á stefnumálum flokksins og nenna að taka til hendi, þegar um þau er að tefla.
Hinn dæmigerði þingmaður sjálfstæðisflokksins er Egill Jónsson. Hann hefur sem formaður landbúnaðarnefndar efri deildar komið í veg fyrir, að frumvarp Alþýðuflokksins um afnám einokunar Grænmetisverzlunar ríkisins sé tekið til umræðu og afgreiðslu í nefndinni.
Þegar Eyjólfur Konráð kvartaði í fyrradag yfir þessari meðferð málsins, hafði Egill um hann hin hæðilegustu orð sem hlaupasmala Alþýðuflokksins. Var Eyjólfur Konráð þó aðeins að hreyfa við máli, sem allur þorri sjálfstæðismanna styður af hjartans sannfæringu.
Sérstaklega er áberandi undirlægjuháttur þingflokks sjálfstæðismanna gagnvart Framsóknarflokknum. Hann endurspeglar hliðstæðan undirlægjuhátt ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Um þetta lið í heild má segja, að það sé eins konar Framsóknarflokkur í Sjálfstæðisflokknum.
Matthías Bjarnason, framsóknarráðherra í Sjálfstæðisflokknum, leggur kapp á að fá Alþingi til að samþykkja ný fjarskiptalög, sem fela í sér aukna hörku í einokun Pósts og síma á fjarskiptum. Þetta frumvarp gengur þvert á anda og stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Á sama tíma nenna ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki að keyra í gegn útvarpslagafrumvarpið, sem gengur í hina áttina, aukið frjálsræði í anda stefnuskrár Sjálfstæðisflokksins. Þeir hyggjast samþykkja fjarskiptafrumvarpið og salta útvarpslagafrumvarpið.
Frumvörp, sem eru í anda stefnuskrár Sjálfstæðisflokksins, fá að velkjast um á Alþingi mánuðum saman og sofna í nefndum, sem stjórnað er af framsóknarmönnum, sem sumir hverjir eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins, en eru samt verri framsóknarmenn en hinir, er játa lit.
Frumvörp, sem hins vegar eru í anda einokunar, borin fram af sérstökum afturhaldsmönnum á borð við Pál Pétursson, formann þingflokks framsóknarmanna, á hins vegar að keyra í gegn á örfáum vikum. Eitt dæmið um það er frumvarpið um fríðindi Mjólkursamsölunnar í kakómjólk og fleiru.
Frekjan í þessum afturhaldsmönnum er svo gegndarlaus, að nú neita þeir að afgreiða kosningalagafrumvarp, sem formenn allra stjórnmálaflokkanna á síðasta þingi standa að á þessu þingi. Ætti afgreiðslan þó nánast að vera formsatriði, því að frumvarpið var samþykkt á síðasta þingi.
Afturhalds- og einokunarsinnar mundu ekki láta svona, ef þeir væru ekki búnir að átta sig á, að hrygginn vantar í þingflokk og ráðherralið sjálfstæðismanna. Þeir ganga á lagið, þegar þeir finna, að þessi dapurlega hjörð hefur næstum engan áhuga á eigin flokksmálum.
Einkennilegt er, að sjálfstæðisflokkurinn sem stofnun skuli orðalaust láta viðgangast, að fulltrúar hans á þingi hagi sér eins og sannfærðir framsóknarmenn. Það er eins og eymdin og niðurlægingin hafi líka lamað apparatið í Valhöll, meira að segja nýja formanninn.
Jónas Kristjánsson.
DV