Lamb? Nei takk

Veitingar

Í minningunni finnst mér lambakjöt einu sinni hafa verið gott. Núna eins og hver annar bragðlaus kjúklingur. Sundurlaust, skreppur saman í eldun, þurrt og jafnvel seigt. Kokkar hafa líka tekið eftir þessu. Sendu málsaðilum bréf. Kvarta þar yfir löngum flutningi með sláturfé, stressi lamba fyrir slátrun og hraðri færibandavinnu við slátrun. Skrokkar hanga ekki, kúnninn verður að geyma kjötið í viku í kæliskáp. Kvartanalistinn er margfalt lengri. Vinnslan sinnir honum ekki. Samt er reynt að viðhalda fornri frægð með þvættingi um, að íslenzkt sé betra en annað. En fyrr eða síðar segja kúnnarnir: Nei takk.