Land tækifæra-skorts

Greinar

Tíu af hundraði landsframleiðslunnar í Finnlandi eru borin upp af erlendri fjárfestingu, en aðeins tvö af hundraði hér á landi. Þetta segir okkur, að fjárglöggir erlendir aðilar með auraráð eru fimmfalt fúsari að festa peninga sína í Finnlandi en hér á landi.

Finnland og Svíþjóð eru orðin lönd tækifæranna á Vesturlöndum. Hátæknibyltingin í löndunum tveimur sogaði til sín erlent fjármagn á síðari hluta nýliðins áratugar. Svo hratt gerðist þetta í Svíþjóð, að sum árin tvöfaldaðist erlend fjárfesting milli ára.

Fjárfesting í hlutabréfum hefur önnur áhrif en lán, sem þarf að endurgreiða. Þess vegna teljast hlutabréf í eigu útlendinga ekki til skulda þjóðarbúsins. Lántökur í útlöndum eru því lakari þróunarkostur en sala á hlutabréfum íslenzkra fyrirtækja til erlendra aðila.

Hagvexti okkar hefur síðan 1997 verið í of miklum mæli verið haldið uppi af lántökum í útlöndum. Löng erlend lán voru lengst af um og innan við 50% af landsframleiðslunni, en fóru í fyrra upp í 86%, sem er hæsta hundraðstala, sem mælzt hefur í sögunni.

Sömu sögu er að segja af erlendum skammtímalánum. Þau voru lengi svipuð og gjaldeyrisforðinn, en hafa nú á fáum árum rokið upp undir þrefaldan gjaldeyrisforða. Allar þær viðmiðunartölur, sem hér hafa verið nefndar, eru langt yfir alþjóðlegum hættumörkum.

Erlendar skuldir þjóðarinnar í heild fóru í fyrra sem hlutfall af landsframleiðslu yfir meðaltal Afríku, sem er mest skuldsetta álfa heimsins. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra, hvað sem ríkisstjórnin segir. Við verðum að snúa af braut endalausrar skuldasöfnunar.

Því miður mun ástandið enn versna á þessu ári. Viðskiptahallinn gagnvart útlöndum verður svipaður og í fyrra samkvæmt spám fjármálastofnana, rúmlega níu af hundraði landsframleiðslunnar. Þetta er fjórða árið í röð með stjarnfræðilegum viðskiptahalla.

Að hluta stafar viðskiptahallinn að vísu af miklum fjárfestingum lífeyrissjóða í útlöndum og er að því marki réttlætanlegur, svo framarlega sem skynsamlega er fjárfest. Mikilvægt er, að öryggissjóðir landsmanna séu sumpart fjárfestir utan við séríslenzkar hagsveiflur.

Að mestum hluta felur viðskiptahallinn þó í sér hættulega skuldsetningu, sem hlýtur að enda með ósköpum. Lánstraust þjóðarinnar hlýtur að dofna eins og Afríkuríkjanna í sama flokki. Við þurfum að breyta innstreymi fjármagns úr lántökum yfir í hlutabréfasölu.

Fjárfestingartraust felur í sér meira traust en lánstraust gerir. Við getum haft lánstraust, þótt erlendir aðilar efist um, að öll lánin fari í nógu arðbæra hluti, en við höfum ekki fjárfestingartraust, nema erlendir aðilar telji, að hlutafé þeirra fari til arðbærra þarfa.

Því miður eru ekki líkur á, að erlendir aðilar hafi mikið álit á ráðagerðum stjórnvalda um hrikalegar fjárfestingar í stórvirkjun við Kárahnjúka og álveri á Reyðarfirði. Það verður í fyrsta skipti í sögunni, að stóriðja hér á landi er ekki borin uppi af erlendu hlutafé.

Í stað þess að gæla við risaeðluhugmyndir, sem njóta lítils trausts fjárfesta í útlöndum, ber stjórnvöldum að reyna að hlúa að menntun og símenntun í hátækni og öðrum nútímafræðum, svo að hér á landi kvikni viðskiptatækifæri, sem freisti erlendra hluthafa.

Það ætti að vera meginverkefni íslenzkra stjórnvalda að búa í haginn fyrir aðstæður, sem sannfæri erlenda fjárfesta um, að Ísland sé land tækifæranna.

Jónas Kristjánsson

DV