Landgrunn og lögsaga.

Greinar

Norsk stjórnvöld segja eyjar Svalbarðs ekki hafa neitt eigið landgrunn, er fallið geti undir svonefnt Svalbarðssamkomulag við Sovétríkin og fleiri ríki. Norsk stjórnvöld segja Svalbarð einfaldlega vera á norska landgrunninu.

Þetta er hliðstætt röksemdum Íslendinga gagnvart Jan Mayen. Sú eyja liggur ekki síður á landgrunni Íslands en Svalbarður á landgrunni Noregs. Neðansjávarhryggir eru nefnilega ekki síðri landgrunn en meginlandsskildir.

Samkvæmt íslenzku landgrunnslögunum frá 1969 má ákveða ytri mörk landgrunnsins með reglugerð. Við getum beðið eftir því, að hafréttarráðstefnan setji fram almenna reglu um 350 mílna landgrunn. En við þurfum ekki að bíða.

Ef norsk stjórnvöld framkvæma hótun sína um einhliða norska efnahags- og fiskveiðilögsögu við Jan Mayen, getum við svarað því samstundis með einhliða íslenzku landgrunni við Jan Mayen, auk annarra mótmæla af okkar hálfu.

Við höfum dæmi um ljósan rétt þjóðríkja til landgrunns út fyrir eyjar, sem önnur ríki segjast ráða. Þetta gildir um rétt Frakklands fram yfir Ermarsundseyjar Breta, þar sem þó er efnahagslíf og föst búseta.

Enn síður getur eyja án efnahags eins og Jan Mayen skert rétt Íslands til fulls landgrunns í samræmi við alþjóðlegar reglur eins og þær eru hverju sinni. Og þetta gildir raunar líka um rétt Íslands til fiskistofna sinna.

Íslendingar hafa bæði sögulegan og sanngirnislegan rétt til fiskveiða og skipulags fiskveiða við Jan Mayen. Hér, en ekki á Jan Mayen, eru þeir strandbúar, sem eðlilegast er, að hagnýtt geti fiskimið við Jan Mayen.

Enda sýnir sagan, að það voru Íslendingar, sem voru fyrstir til að veiða loðnu við Jan Mayen. Þær veiðar voru eðlilegt framhald loðnuveiða við Ísland, enda um sama stofninn að ræða. Norðmenn komu síðar til skjalanna.

Norðmenn segjast hafa átt Jan Mayen í hálfa öld og ítök í loðnuveiðum svæðisins í tvö ár. Um slík atriði þarf auðvitað að semja. Og erfitt er að neita því, að það eru Íslendingar, sem hafa mesta hagsmuni af skipulagi loðnuveiðanna.

Íslendingar hafa vefengt rétt Norðmanna til efnahagslögsögu eða fiskveiðilögsögu við Jan Mayen. Í væntanlegum viðræðum í Osló þurfa samningamenn okkar að halda til streitu kröfunni um sameiginlega efnahagslögsögu við Jan Mayen.

Norskir samningamenn hafa margsagt, að slík sameiginleg lögsaga hafi ekkert þjóðréttargildi. Þeir hafa þó aldrei sett fram nein frambærileg rök fyrir þeirri skoðun. Og sameiginlegir hagsmunir kalla raunar á sameiginlega lögsögu.

Búast má við nýrri, norskri reyksprengju í viðræðunum í Osló. Á fyrsta fundinum voru það meintar loðnuveiðar Rússa. Á öðrum fundinum voru það meintar rækjuveiðar Efnahagsbandalagsins. Slíkar sprengjur eru léleg tilraun til taugastríðs.

Um hagsmuni okkar gagnvart grænlenzkri efnahagslögsögu ræðum við á öðrum vettvangi. Þeir valda okkur ekki tímahraki í viðræðum við Norðmenn um Jan Mayen. Þar höfum við sterka réttarstöðu, jafnvel þótt Norðmenn leiðist út í einhliða yfirlýsingar um norska lögsögu.

Við getum haldið fast við, að Jan Mayen sé á íslenzku landgrunni og að sameiginleg efnahagslögsaga sé báðum aðilum í hag, Norðmönnum og Íslendingum.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið