Landlæknir í öngstræti

Greinar

Sigurður Guðmundsson er landlæknir, af því að núverandi ríkisstjórn taldi þá, sem næst embættinu stóðu, þegar það var auglýst, ekki nógu halla undir miðlæga gagnagrunninn, sem deCode vildi koma upp. Ríkisstjórnin taldi Sigurð þægan og tók hann því fram fyrir hina, sem sóttu um landlækninn.

Sigurður er að þessu leyti pólitískt kvígildi, sem sækir embætti sitt hvorki til guðs né fólksins, heldur til sérstæðra aðstæðna í pólitíkinni. Óráðlegt er af slíkum manni að slá um sig með kenningum um siðferðislega stöðu annarra aðila í þjóðfélaginu, svo sem fjölmiðla.

Sú ákvörðun DV að birta nöfn og myndir af fólki í fréttum byggist á röksemdum, sem koma fram í siðareglum. Um þær hefur rækilega verið fjallað hér í blaðinu og verður ekki endurtekið. Ekkert bendir til, að landlæknir hafi skoðað þau sjónarmið eða hafi nokkra hugmynd um tilvist þeirra.

Landlæknir ber hins vegar ábyrgð á siðum lækna, svo sem komið hefur fram í sívakinni umræðu um risnu á vegum lyfjaframleiðenda og -seljenda. Ef landlæknir hefur áhuga á að bæta siði í þjóðfélaginu, liggur beint við, að hann taki til hendinni og knýi lækna með góðu eða illu til góðra siða.

Skýrt hefur verið frá, að hagsmunaaðilar í lyfsölu kosti ráðstefnur fyrir lækna, borgi fyrir þá kost og lógí, sendi þá í golfferðir, hafi íbúð í London til ráðstöfunar fyrir þá. Vitað er, að meira fer í slíkan kostnað lyfjafyrirtækja en í kostnað þeirra við rannsóknir og þróun nýrra lyfja.

Niðurstaða þessa spillta kerfis undir verndarvæng landlæknis er, að hér á landi er notað miklu meira af sumum lyfjum og lyfjategundum en í nágrannalöndunum, þar sem þó er notað meira af lyfjum en margir telja ráðlegt. Segja má, að læknar hafi gert lyfjameðferð að eina úrræðinu fyrir veikt fólk.

Skoðun okkar á DV er, að landlæknir hafi ekki sýnt, að hann hafi neitt að leggja fram til málanna um siðareglur í fjölmiðlum og túlkun slíkra siðareglna, en eigi heldur að snúa sér að koma á fót nothæfum siðareglum fyrir lækna og láta þar taka sérstaklega hart á ofangreindum lyfjamútum.

Siðareglur lækna eru ekki birtar eins og siðareglur DV, enda snúast þær meira um, hvernig læknar eigi að vernda hver annan en um ábyrgð þeirra gagnvart almenningi, puplinum.

DV