Samið hefur verið um, að hlutar af símaþjónustu stórfyrirtækis flytjist austur og vestur á firði. Enn fremur hefur verið samið um, að hlutar af einfaldri forritun tölvufyrirtækis flytjist til Indlands. Í þessum dæmum leika íslenzk sjávarpláss sama hlutverk og Indland.
Þetta ferli byrjaði erlendis með því að bandarísk fyrirtæki fluttu símaþjónustu sína til Indlands, þar sem fólk hefur góða menntun og talar góða ensku, en hefur takmörkuð tækifæri og krefst ekki hárra launa. Síðan hefur ferlið undið upp á sig og nær til flóknari starfa.
Nú er forritun smám saman að flytjast til Indlands, sem siglir upp virðingarstigann í flokki láglaunasvæða. Íslenzku sjávarplássin eru hins vegar að fara inn á lægsta þrepið og fagna ákaft að fá tækifæri til að svara í síma fyrir stórfyrirtæki ríka fólksins í Reykjavík.
Svo langt hefur minnimáttarkennd gengið í dreifbýli Íslands, að menn borga beinlínis fyrir að fá til sín láglaunastörf. Fyrir tveimur árum borgaði Rangárhreppur stórfé fyrir að gerast hluthafi í vinnufatagerð gegn því, að tvö störf yrðu stofnuð við saumaskap á Hellu.
Tæplega er unnt að líta svo á, að indverskt ástand ríki á Austfjörðum og Vestfjörðum. Atvinna er rífleg á þessum svæðum og meðaltekjur hlutfallslega háar. Samt eru ráðamenn svæðanna farnir að hugsa eins og yfirvofandi sé fátækt og atvinnuskortur að indverskum hætti.
Ráðamenn fjarðabyggða telja sig samt sjá fyrir, að atvinna og tekjur muni hrynja. Fólk sé að hugsa sér til hreyfings og reyna að koma húsnæði sínu í verð, áður en eignir verði verðlausar. Þeir telja sig hamla gegn þessu með því að útvega fólki störf við sauma og síma.
Ráðamenn íslenzkra fjarðabyggða hafa gefizt upp á hefðbundinni lífsbaráttu. Þeir telja ekki, að sjávarútvegur haldi byggðum uppi, enda muni kvótaerfingjar flytja suður að hætti utanríkisráðherra. Þeir vanmeta líka gróðavænlega framtíð í grænni ferðaþjónustu.
Uppgjöfinni fyrir austan og vestan má líkja við þekkt fyrirbæri fyrri tíma, þegar miðaldra fólk gafst upp á erfiðri lífsbaráttu og lagðist skyndilega í kör, þótt það hefði ekki áður sýnt eindregin öldrunarmerki. Þannig eru landshlutar farnir að leggjast í kör á miðjum aldri.
Álver í héraði er hreinn happdrættisvinningur að mati þeirra, sem hafa gefizt upp í minnimáttarkennd sinni. Eignir hækka aftur í verði og utanaðkomandi álversmenn sjá um, að menn hafi öruggt lífsviðurværi. Eyjabakkar eru lítils virði í þriðja heimi Íslands.
Líta má á verndun Eyjabakka sem lúxus hátekjufólks á höfuðborgarsvæðinu, rétt eins og breytt viðhorf til náttúruverndar á Vesturlöndum almennt eru fylgifiskur auðsældar almennings. Sveitarstjórnarmenn í körinni telja Austfirðinga ekki hafa efni á slíkum lúxus.
Afstætt er, hvenær fólk er orðið svo ríkt, að það hafi efni á náttúruvernd. Fátæk húsfreyjan í Brattholti taldi sig hafa efni á að neita að selja Gullfoss fyrr á öldinni, en efnaðir ráðamenn á Austfjörðum eru of fátækir til að geta séð af miðlunarlóni á Eyjabökkum.
Spurningin um fátækt er í rauninni spurningin um andlega fátækt. Húsfreyjan í Brattholti var auðug, af því að hún hafði sjálfsvirðingu, sem er af skornum skammti hjá ráðamönnum Austfjarða, er hafa unnvörpum lagst í kör og heimta framfæri byggðanna af álveri.
Munur Indlands og Austfjarða er, að þar eru forritarar að vinna sig upp úr þriðja heiminum, en hér eru ráðamenn Austfjarða að tryggja fólki sínu körina.
Jónas Kristjánsson
DV