Landvörnum er lokið

Greinar

Þá er loksins komið að varnarlausu Íslandi. Orion-flugvélar svonefnds varnarliðs eru horfnar og áhafnir þeirra líka. Að venju hafði Bandaríkjastjórn ekkert samband við íslenzku ríkisstjórnina, sem hún fyrirlítur eins og aðra útlendinga yfirleitt. Utanríkisráðuneytið kom að venju af fjöllum.

Flugvélarnar verða ekki vistaðar hér aftur, enda er horfinn óvinurinn mikli, sem var forsenda þeirra. Sovétríkin eru dauð og Rússland er ekki hættulegt öðrum en landamæraríkjum sínum. Atlantshafsbandalagið er í tilvistarkreppu og reynir með döprum árangri að afla sér framhaldslífs í Afganistan.

Lengi hefur verið ljóst, að varnarliðið mundi fara, ekki fyrir tilverknað herstöðvaandstæðinga af ýmsu tagi, heldur vegna þess að Bandaríkin hlutu fyrr eða síðar að uppgötva, að hún hefði meiri þörf fyrir hernaðarmátt á öðrum slóðum en á köldu landi, sem er ekki lengur hernaðarlega mikilvægt.

Baráttan með og móti her í landi hefur um langt skeið verið íslenzkt innanríkismál. Ríkisstjórnarflokkarnir telja Suðurnesjamönnum betur borgið í vinnu á Vellinum heldur en á frjálsum markaði. Þessi vinnuvernd hefur verið hornsteinn utanríkisstefnu Íslendinga eins lengi og elztu menn muna.

Forsætis- og utanríkisráðherra töldu sig mundu vinna prik hjá George W. Bush Bandaríkjaforseta með því að styðja hryðjuverk Bandaríkjahers í Írak, þar sem tíuþúsund borgarar létu lífið. Stríðsyfirlýsingu Davíðs og Halldórs var ætlað að bræða hjörtu ofbeldishneigðra ráðamanna í Washington.

Sú von hefur brugðizt, enda lúta heimsveldi ekki sömu lögmálum og venjuleg ríki. Heimsveldi taka það sem þeim þóknast og þakka ekki fyrir sig. Undirlægjuháttur ríkisstjórna smárra eyríkja er svo sjálfsagður, að ekki er talin ástæða til að veita ráðamönnum þeirra áfallahjálp.

Því miður er enn ekki hægt að tímasetja með vissu þann sagnfræðilega merkisatburð, er vörnum Íslands lauk. Milli jóla og nýárs var tilkynnt, að viðhaldsdeildir flugvélanna á Keflavíkurvelli yrðu lagðar niður. Þá mátti ljóst vera, að varnarflugvélarnar yrðu ekki framar vistaðar hér á landi.

Fróðlegt er að fylgjast með fálmi stjórnvalda, sem reyna að láta eins og ekkert hafi gerzt og allt sé eins og það hafi alltaf verið. Þótt Bush svari bara alls ekki í símann.

Jónas Kristjánsson

DV