Langrækni.

Greinar

Þór Vilhjálmsson, forseti Hæstaréttar, er of langrækinn. Hann man enn níðskrifin í Þjóðviljanum og víðar um aðstandendur undirskriftasöfnunar Varins lands. Honum finnst, að meiðyrðadómarnir í því máli hafi verið of vægir. Og hann er enn að tala um þetta.

Flestir geta verið sammála um, að skrif um Þór og félaga hans í Vörðu landi gengu út í öfgar. Þau voru rætin, enda voru þau dæmd dauð og ómerk. Þar með ætti það mál að vera úr sögunni. Og forseti Hæstaréttar ætti að hafa önnur áhyggjuefni en það.

Ef fólk væri beðið um að tjá sig um dómana vegna Varins lands, mundu svörin fara eftir skoðunum manna á veru Varnarliðsins hér á landi. Andstæðingar þess mundu segja dómana hafa verið of stranga, en stuðningsmennirnir mundu segja þá hafa verið of væga.

Í þessu næstsíðasta stóra máli af því tagi, sem Þór Vilhjálmsson hefur áhyggjur af, er mat manna á þyngd dóma stjórnmálalegs eðlis. Einstaklingar geta haft á þeim ýmsar skoðanir. En það er mjög einkennilegt, að forseti Hæstaréttar skuli hafa opinbera skoðun.

Allir þeir, sem stinga höfðinu út um gluggann í stjórnmálum landsins, geta átt von á kárínum, ekki sízt í viðkvæmum tilfinningamálum á borð við Varnarliðið. Menn verða að taka slíku með ró og minnast þess, að rógur lýsir rægjendum betur en hinum rægðu.

Til dæmis eru tæplega til þær illu hvatir, sem höfundur þessa leiðara hefur ekki verið sakaður um af hálfu forstjóra hins hefðbundna landbúnaðar og mestu siðleysingja Stórstúkunnar, svona samanlagt. Samt hefur æran ekki látið neitt á sjá í þeirri orrahríð.

Þegar forseti Hæstaréttar finnur sér ástæðu til að rægja íslenzka fjölmiðla að ástæðulausu í útlöndum, fara menn að skilja hinn undarlega dóm Hæstaréttar í síðasta stóra málinu af því tagi, sem Þór Vilhjálmsson hefur áhyggjur af, hinu svokallaða Spegilsmáli.

Fátt var í rauninni athugavert við hið dæmda tölublað Spegilsins nema hinn algeri skortur á fyndni í blaðinu. En forseti Hæstaréttar mun hafa tekið eitthvað af efninu til sín og fallið það þungt. Fáir aðrir sáu blett falla á æru hans eða annarra.

Íslenzkir fjölmiðlar eru ekki eins og Þór Vilhjálmsson lýsir þeim í útlöndum. Í engu nálægu landi eru blöðin eins tillitssöm og varfærin og þau eru hér á landi. Og forseta Hæstaréttar væri nær að hafa áhyggjur af vandamálum, sem standa honum nær.

Í fyrra féll dómur í Hæstarétti eftir þrjú ár frá þingfestingu í undirrétti. Skuldakrafan, sem staðfest var, hafði þá rýrnað í verðbólgunni niður í fjórðung af upphaflegu verðgildi. Það væri verðugt verkefni fyrir forseta Hæstaréttar að hindra slíkt í framtíðinni.

Um síðustu áramót biðu 130 einkamál og 5 opinber mál flutnings í Hæstarétti. Seinagangur dómstólsins er meiriháttar vandamál í réttarfari landsins. Formaður lögmannafélagsins hefur talið sig knúinn til að víta þetta á opinberum vettvangi.

Það sæmir ekki forseta Hæstaréttar að vera persónulega langrækinn út af Vörðu landi og Speglinum. Meiðyrði eru ekki þjóðfélagslegt vandamál á Íslandi, hvað sem Þór Vilhjálmsson segir í útlöndum. Vinnubrögð Hæstaréttar eru hins vegar verðugt tilefni leiðréttinga.

Jónas Kristjánsson

DV