Langstærsta gróðurhúsið.

Greinar

Suður á Keflavíkurflugvelli er hús, sem stendur að mestu autt í tuttugu klukkustundir af hverjum sólarhring. Það er flugstöðin, sem vaknar til lífsins, þegar flugvélarnar fara á morgnana, og síðan undir kvöld, þegar þær koma aftur.

Ekki verður vart við, að þrengsli hrjái farþega á þessum tveimur tímabilum anna. Og auðvelt ætti að vera að semja við flugfélögin um meiri breidd í brottfarar- og komutímum, ef umferðin ykist mjög frá því, sem nú er.

Helzt verður vart þrengsla í litlu fríhöfninni, sem farþegar nota, þegar þeir koma til landsins. En þar er um að ræða þjónustu, sem er umfram þá, er flestar aðrar flughafnir veita. Hún ber vitni um mat á, að rýmið sé nægilegt.

Æskilegt væri að bæta aðstöðu þeirra, sem bíða eftir farþegum, koma upp salernum og biðstofu með sætum. En það verkefni má leysa með einfaldri og ódýrri viðbyggingu, eins og auka má rýmið í litlu fríhöfninni.

Nauðsynlegast af öllu er að byggja færanlega arma frá flugstöðinni út í flugvélar, svo að farþegar þurfi ekki að sæta óblíðri veðráttu. Einnig það verkefni er hægt að leysa við núverandi flugstöð á Keflavíkurflugvelli.

Hugmyndin um nýja flugstöð varð til á tíma meiri flugumferðar. Þá buðu Loftleiðir einar upp á ódýr fargjöld yfir Atlantshafið. Og þá var mikið um millilendingar erlendra farþegavéla. Báðar þessar forsendur eru úr sögunni.

Einhverjum hugmyndaríkum manni hefur dottið í hug, að efla mætti landkynningu og minjagripasölu, ef áningarfarþegar gætu rölt um í pálmalundum í stíl aldingarðsins Eden í Hveragerði. En það vantar bara þessa áningarfarþega.

Þótt forsendur hafi breytzt, er enn ráðgert að reisa flugstöð með langstærsta gróðurhúsi landsins. Hitun þess og loftræsting mun kosta nokkrar milljónir króna á hverju ári umfram það, sem kostar að hita núverandi flugstöð.

Ennfremur þarf her garðyrkjamanna til að sjá um, að pálmalundirnir leggist ekki í órækt og verði ekki að verri landkynningu en til var stofnað. Vafasamt er, að sá launakostnaður skili sér til fulls í sölu banana og vínberja.

Til að koma þessari vitleysu á fót hyggst ríkið taka 616 milljónir króna að láni. Það er gífurleg viðbót við skuldabyrðina gagnvart útlöndum, sem þegar er komin upp í 60% af eins árs þjóðarframleiðslu og má ekki hækka.

Fyrir sömu upphæð mætti ráðast í eitthvert arðbært verkefni, svo sem lagningu bundins slitlags á þrjá fjórðu hluta hringvegarins um landið. Í kaupbæti mætti ljúka smíði þjóðarbókhlöðunnar, sem stöðvast hefur vegna fjárskorts.

Talað hefur verið um, að ekki þurfi að nota alla þessa peninga. Áætlaður rúmmetrakostnaður sé tvöfaldur á við það, sem annars tíðkast hér á landi. En óskhyggja af slíku tagi hefur sjaldan orðið að veruleika hjá ríkinu.

Auðvitað væri æskilegt að skilja á milli farþegaflugs og hernaðarflugs. En í ljósi þess, að núverandi flugstöð er og verður nógu stór og að nýja flugstöðin verður ekki arðbær, getur þetta ekki talizt forgangsverkefni.

Gróðurhúsið mikla suður á Keflavíkurflugvelli verður ódauðlegur minnisvarði um fákænsku og skort á sveigjanleika. Það verður reist í hreinni þrjózku og andstöðu við heilbrigða skynsemi. Og síðan verða utanríkisráðherrar okkar jafnan kallaðir garðyrkjuráðherrar.

Jónas Kristjánsson.

DV