Á landsfundi sínum er Alþýðubandalagið að reyna að segja skilið við skrautlega fortíð sína og hefja aðild að óvissri framtíð. Fæðingarhríðirnar hafa verið langvinnar, en nú er svo komið, að jafnvel Svavar Gestsson er að verða uppiskroppa með nothæfar frestanir.
Nokkrir þingmenn hafa einangrazt í andstöðunni, en grasrótin styður nánast öll sameiginlegt framboð með Alþýðuflokki og Kvennalista að tæpu ári. Að þessu sinni verður atkvæðagreiðslu ekki frestað, af því að þolinmæði sameiningarsinna er loksins þrotin.
Fylgi mun kvarnast úr köntunum. Hjörleifur Guttormsson stofnar flokk græningja og Steingrímur Sigfússon getur orðið framkvæmdastjóri hjá gjafakvóta-útgerðar-auðvaldinu á Norðausturlandi. En lífið í flokknum verður léttara, þegar búið er að taka á málinu.
Eftirsjá er í Hjörleifi, sem þekkir umhverfismál betur en nokkur annar Íslendingur og gæti gert gagn á því sviði, ef hann rækist í flokki. En hann er því miður ekki umhverfisvænn í pólitískri sambúð og hefur málað sig út í horn í ágreiningsmálum flokksins.
Sennilegast er, að úr ösku gömlu flokkanna rísi fyrirbæri sem líkist jafnaðarflokkum Evrópu. Það er eins konar vinstri flokkur, sem hlustar eftir því, hvað sé vinsælt. Slíkur flokkur mun ekki lengi láta gamlar stefnuskrár verða sér fjötur um fót á atkvæðaveiðum.
Meðan fyrrum formaður Alþýðubandalagsins er úti í heimi að mæla með stækkun Atlantshafsbandalagsins, geta gamlir flokksfélagar hans haldið áfram að muldra hver í barm annars um, að þeir séu enn á móti NATO. En þeir hafa áttað sig á, að enginn er að hlusta.
Gamli tíminn er liðinn og gömlu málin með honum. Gömlu hanarnir vekja ekki neinn til dáða. Orka nýja flokksins mun fara í að finna sinn Tony Blair eða sinn Felipo Gonzales. Hinn útvaldi verður síðan látinn sjá um kúrsinn meðan hann fiskar vel.
Vinnan í málefnanefndum sameiningarinnar einkenndist af, að menn höfðu ekki nokkurn minnsta áhuga á að láta málefnin þvælast fyrir sér. Utanríkismálastefna nýja flokksins var fyrirhafnarlaust ákveðin á sárafáum fundum, sennilega ólesin af sumum.
Hjörleifur og Steingrímur skiluðu séráliti hvor í sinni nefnd, þegar menn nenntu ekki að hlusta á þá. Gömlu hanarnir munu fara mikinn á landsþinginu, en fáir nenna að eiga orðastað við þá. Tími umþóttunar er liðinn og nú verða atkvæðagreiðslur látnar ráða.
Fundurinn snýst ekki um, hvort greiða skuli atkvæði, heldur um að greiða atkvæði. Ef málamiðlun finnst, sem er annað en þunnt yfirvarp fyrir þá, sem lízt illa á þróunina, er sameiningarferlið orðið ónýtt. Slíkan kaleik geta sameiningarsinnar ekki sýnt áhorfendum.
Framundan er erfiður tími. Nýi flokkurinn þarf að velja sér talsmenn á öllum sviðum. Val þeirra kostar valdabaráttu, því að þeir verða ígildi eins konar ráðherra í skuggaráðuneyti. Síðan þarf að reyna að hindra að þeir tali óþarflega mikið í kross á almannafæri.
Bagalegastir verða þingmenn gamla tímans í aflögðu flokkunum. Þeir valda nýja flokknum tjóni, þótt þeir tali í tómarúmi. Á þessu þarf væntanleg forusta að taka, því að hefðbundin kosningabarátta fer að töluverðu leyti fram í þingsölum síðasta vetur kjörtímabils.
Því fyrr sem nýi flokkurinn finnur sinn Tony Blair eða sinn Felipo Gonzales, þeim mun meiri líkur eru á, að flokkurinn fái frambærilega ímynd hjá kjósendum.
Jónas Kristjánsson
DV