Langvinnt tilhugalíf.

Greinar

Tilhugalíf þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar virðist ekki ætla að verða skammvinnt. Það stendur enn, rúmlega hálfu öðru ári eftir stjórnarmyndun. Annað eins tilhugalíf hefur ekki sézt um langan aldur í stjórnmálum landsins.

Sennilega þarf meira en dægurbundna leiðarahöfunda til að skýra þessa ótrúlegu festu í vinsældum ríkisstjórnar, sem meðal annars kemur fram í, að hún nýtur nú heldur meira fylgis en hún gerði fyrir réttu ári.

Á þessum tíma hefur fylgið við ríkisstjórnina aukizt úr 61% í 64% og andstaðan minnkað úr 39% í 36%. Stjórnarandstaðan getur að vísu huggað sig við, að breytingin er svo lítil, að hún getur varla talizt marktæk.

Ennfremur getur það forðað stjórnarandstöðunni frá örvæntingu, að horfinn er vinsældakúfurinn, sem myndaðist hjá ríkisstjórninni í fyrravetur, er hún náði 75% fylgi í skoðanakönnun Dagblaðsins í febrúar.

Breytingin er hins vegar lítil síðan í vor, þegar ríkisstjórnin hafði 69% stuðning í hliðstæðri skoðanakönnun. Enda er sumarið yfirleitt ekki tími pólitískra breytinga og þetta sumar satt að segja verið óvenju friðsælt.

Nú sem fyrr er athyglisvert, að margir segjast ekki vera ánægðir með ríkisstjórnina, þótt þeir styðji hana. Þetta hefur komið og kemur nú greinilega fram í ummælum, sem margir láta flakka með atkvæði sínu.

Þessi munur kom líka fram hjá Vísi, sem spurði ekki um stuðning, heldur ánægju með ríkisstjórnina. Þar komu út lægri tölur hjá stjórninni, þótt hún væri þar líka í öruggum meirihluta. Og verður Vísir þó seint sakaður um stjórnarstuðning.

Sem sýnishorn af stuðningi án ánægju má nefna ummæli eins og: “Ég er ekki ánægður með allt, sem stjórnin gerir, en þetta er samt það skásta, sem til greina kemur.” Eða: “Við eigum ekki völ á öðru betra.”

Einnig er athyglisvert, að fylgið, sem hefur í sumar lekið af ríkisstjórninni, hefur ekki færzt yfir til stjórnarandstöðunnar, heldur fyllt raðir hinna, sem annaðhvort lýsa óákveðinni afstöðu eða vilja ekki svara.

Þessir tveir síðustu hópar eru í nýjustu könnun Dagblaðsins komnir samanlagt upp í þriðjung allra hinna spurðu. Þetta háa hlutfall hlýtur að valda mikilli óvissu, þegar reynt er að spá um framtíð stjórnarstuðnings.

Þeim fer fjölgandi, sem vantreysta bæði stjórn og stjórnarandstöðu, samanber ummæli á borð við: “Það er sami rassinn undir þessum körlum öllum.“ Eða: “Þær eru allar slæmar þessar stjórnir.” Þetta eru stjórnmálamönnum ill tíðindi.

Ríkisstjórnin nýtur þess í skoðanakönnuninni, að hún er almennt talin vera að nálgast loforðið um að koma verðbólgu ársins niður í 40%. Ennfremur hefur peningatraust aukizt í formi gífurlegrar sparifjármyndunar í kjölfar verðtryggingar.

En ýmsar aðrar gerðir ríkisstjórnarinnar hafa ekki haft á sér varanlegt svipmót. Atvinnulíf hefur að vísu haldizt fjörugt, en mörgum vandamálum hefur verið skotið á frest. Hugrekki er ekki aðall íhaldssamra stjórna sem þessarar.

Hins vegar virðist þjóðin ekki gefin fyrir leiftursóknir, hvorki frá hægri né vinstri. Hún sættir sig við ríkisstjórn, sem með góðum vilja reynir að moða úr gamalkunnum íhaldsúrræðum og hefur lukkuna með sér, þegar á reynir.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið