Látum markaðinn dæma.

Greinar

Á Íslandi þurfum við ekki meiri landbúnað en svo, að hann standist þríþætt afnám niðurgreiðslna, útflutningsuppbóta og innflutningsbanns. Við þurfum aðeins þann landbúnað, sem hentar frjálsum innanlandsmarkaði.

Við getum spáð í þörfina með því að gera okkur í hugarlund, að innlendar landbúnaðarvörur væru ekki niðurgreiddar og að frjáls væri innflutningur á erlendum landbúnaðarafurðum. Það er eini rétti mælikvarðinn.

Við mundum draga verulega úr dilkakjötsneyzlu við eðlilega verðmyndun milli þess annars vegar og fisks, kjúklinga og svínakjöts hins vegar. Við mundum ekki borða nema helming eða þriðjung núverandi framleiðslu.

Við þurfum semsagt ekki nema helming eða þriðjung núverandi sauðfjár í landinu. Um leið mundum við stöðva ellefu alda rányrkju landsins. Við mundum í fyrsta sinn snúa vörn í sókn við að klæða landið.

Mjólkurneyzla mundi minnka nokkuð við eðlilegt verðsamræmi hennar og annarra drykkja, svo sem ávaxtasafa. Innflutt smjör og innfluttir ostar mundu verða alls ráðandi á markaðinum, því að innlendu vörurnar eru margfalt dýrari.

Sveiflur í framleiðslumagni mjólkur mundu jafnast með sveiflum í verði á markaðinum, alveg eins og gerist nú í grænmetinu. Og framleiðslan mundi flytjast nær þéttbýli til bættrar samkeppnisaðstöðu gegn innfluttri mjólk.

Offramleiðsla mjólkurvara er um þessar mundir svipuð og offramleiðsla dilkakjöts. Því má spá, að raunverulega sé ekki þörf fyrir nema helming eða þriðjung af núverandi fjölda nautgripa í mjólkurframleiðslu.

Búast má við, að eggjaframleiðsla geti staðizt erlenda samkeppni, ef hún er stunduð við þéttbýli eða í nágrenni þess. Þar að auki mundi eggjaneyzla njóta góðs af brottfalli niðurgreiðslna annarra afurða.

Afnám niðurgreiðslna mundi í enn meira mæli flytja kjötneyzlu yfir til kjúklinga og svínakjöts. Það gæti eflt þann landbúnað, ef hann svo aftur á móti gæti staðizt samkeppni við innflutt svínakjöt og kjúklinga.

Íslenzk ylrækt virðist að mörgu leyti vera orðin samkeppnishæf gegn innflutningi. Auk þess býður hún upp á mun betri vörur en þær, sem inn hafa verið fluttar. Ylrækt fyrir innanlandsmarkað ætti að vera unnt að auka.

Ræktun loðdýra er hafin hér á landi og hefur komizt í gegnum ýmsa byrjunarerfiðleika. Byrjað var á minknum og nú er refurinn kominn til skjalanna. Sennilega má enn auka fjölbreytni og magn loðdýraræktar hér á landi.

Mestir möguleikar eru þó í ýmiss konar fiskeldi, einkum í nágrenni sjávar og jarðhita. Slík starfsemi er enn á byrjunarstigi hjá okkur, en gæti orðið glæsileg atvinnugrein, ef vel verður á spilunum haldið.

Í stórum dráttum eru landbúnaðarvandamál Íslendinga eingöngu í framleiðslu dilkakjöts og mjólkurafurða. Aðrar greinar hafa möguleika á að standast erlenda samkeppni, sumar meira að segja á erlendum markaði.

Herkostnaður okkar af tvöfaldri eða þrefaldri framleiðslu dilkakjöts og mjólkurafurða er vægast sagt hrikalegur. Honum hefur verið lýst í leiðurum Dagblaðsins að undanförnu. Þær þrjár Kröflur á ári þarf að stöðva, – nú þegar.

Jónas Kristjánsson

DV