Laufafell

Frá Hungurfiti um Laufafell til Hvanngils á Fjallabaksleið syðri.

Laufafell er stakt og virðulegt ríólít-fjall á þessari leið. Farið er yfir Markarfljót á auðveldu vaði um malareyrar á Launfitarsandi. Leiðin um Álftavatn til Hvanngils er síðan fjölbreytt í ótal krókum og hæðum.

Förum frá Hungurfiti í 620 metra hæð vestur frá skálanum um Hungurskarð sunnan við Skyggni og beygjum til norðurs með Skyggni. Þar komum við inn á Fjallabaksleið syðri. Fylgjum þeirri leið til norðausturs um Rangárbotna og Laufahraun. Grasleysufjöll eru norðvestan botnanna og Skyggnishlíðar suðvestan þeirra. Þegar við komum að Laufafelli, tökum við slóðina, sem fer til austurs. Þar komum við í 700 metra hæð. Við förum um skarð milli Laufafells og Hagafells og förum yfir Markarfljót á eyrum á Launfitarsandi. Síðan förum við um Sátubotna og gegnum Álftaskarð á Torfatindum. Þar komum við að Álftavatni, þar sem er fjallaskáli. Við förum áfram suður yfir Brattháls og Tunnuöldu að fjallaskálanum í Hvanngili í 570 metra hæð.

36,4 km
Rangárvallasýsla

Skálar:
Hungurfit: N63 50.530 W19 32.850.
Álftavatn : N63 51.441 W19 13.616
Hvanngil: N63 49.920 W19 12.290.
Hvanngil eldri: N63 49.988 W19 12.578.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Hungurfit, Grasleysufjöll, Reiðskarð, Krókur, Mosar, Mælifellssandur.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson