Laugaás

Veitingar

Mikil aðsókn

Engin matstofa Reykjavíkursvæðisins kemst með tærnar, þar sem Laugaás hefur hælana í samanburði mikilla gæða og lágs verðs. Þetta er eitt af beztu veitingahúsum borgarinnar og um leið eitt af hinum ódýrustu. Tæpast er hægt að gera betur.

Ánægjulegt er að sjá, hve mikil aðsókn er að Laugaási. Miklar annir voru hjá starfsliði, þegar Vikan prófaði staðinn í þetta sinn. Margir gestir urðu frá að hverfa á mesta annatímanum kl.7-8. Útidyrnar voru stöðugt að opnast og lokast.

Nú getur fólk fengið fulla þjónustu í Laugaási, ef það vill, þótt algengt sé enn, að pantað sé við diskinn. Matreiðslumennirnir eru í nánu sambandi við gestina, því að þeir bera sjálfir matinn á borð og geta svarað spurningum.

Hinar fallegu og einföldu innréttingar hafa ekki látið á sjá. Þetta er með látlausari og þægilegri matsölum borgarinnar, en bekkurinn er oft þröngt setinn í svona litlu húsnæði. Barnahornið er fjölskyldum til mikilla þæginda.

Margir dagsréttir

Laugaássmenn hafa ekki sýnt áhuga á að sækja um vínveitingaleyfi. Vafalaust væri slíkt leyfi auðsótt, því að staðurinn er mun sterkari frá sjónarmiði matargerðarlistar en margur vínveitingastaðurinn.

Ég held, að létt vín mundi bæta Laugaás enn. Reynslan er líka sú, að hinir mörgu litlu salir, sem hafa fengið leyfi til slíks, hafa ekki orðið griðastaðir hávaðasamra drykkjuseggja, heldur aflað sér virðulegra yfirbragðs.

Í Laugaási er réttilega lögð mikil áherzla á fjölbreytt framboð rétta dagsins og það jafnan með súpu innifalinni í verðinu. Yfirleitt er þetta góður matur og ekki skyggir á, að leitun er að ódýrari veitingahúsamat.

Spergilsúpa dagsins var sjóðheit og bragðgóð, en spergillinn var þó ekki laus við trénun. Hrásalatið, sem fylgdi aðalréttunum, var ferskt, en fremur hversdagslegt að frágangi. Og til eru fleiri sósur en “þúsund eyja”.

Í ofnbökuðum sjávarréttum fastaseðilsins var allt gott, nema gömul og seig úthafsrækjan. Þar mátti finna soðinn fisk, steiktan og djúpsteiktan, rækjur, krækling og gellur mjög góðar. Rækjuósa þakti sjávarréttina.

Grillaður kjúklingur dagsins var mjúkur og alveg sérlega góður. Pönnusteiktur og ofnbakaður fiskur dagsins var hins vegar ekki nógu heitur og hveitisósan varð leiðinleg við kólnun. Frönsku kartöflurnar hentuðu þessum rétti ekki.

Pitsa hússins með sveppum, nautakjöti, kræklingi, tómati og rækjum var mjög sterk og sæmileg á bragðið. Kínversku pönnukökurnar voru mjög fínar, þunnar og stökkar, með innihaldi við hæfi.

Spara dósahnífinn

Kryddsteikt nautakjöt dagsins reyndist vera fremur gott gúllaskjöt. Með því var borin fram kartöflustappa, rósakál, gulrætur, sem voru ekki úr dós, blaðsalat og tómatur. Laugaásmenn hafa sem betur fer ekki tekið trú á dósahnífinn.

Enskt buff fastaseðilsins var mjög meyrt og gott, óvenju vel rautt, borið fram með lauk, pönnusteiktum kartöflum, sýrðum gúrkum og soði.

Lambasmásteik dagseðilsins var mjög meyr og góð, ekki alveg grá, en þó dálítið ofsteikt. Hún var borin fram með bakaðri kartöflu, rósakáli, gulrótum, blaðsalati, tómati og rjómasósu.

Við fengum að smakka á tívolí-eftirmat gærkvöldsins, sunnudagsins. Það var súkkulaðiskál með ávaxtahlaupi og þeytikremi, bragðbættu með sérrí, hinn ágætasti matur. Að lokum má geta þess, að kaffið var gott, næstum heimsóknar virði.

Hreint gjafverð

Réttur dagsins með súpu kostaði að meðaltali 47 krónur, sem er hreint gjafverð á íslenzkan mælikvarða. Á öðrum verðsviðum slær Laugaás líka met. Miðjuverð forrétta er 25 krónur, súpa 12 krónur, fiskrétta 36 krónum, kjötrétta 65 krónur og eftirrétta 10 krónur.

Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 85 krónur. Til samanburðar við aðra staði bæti ég við 28 krónum fyrir hálfa flösku af ódýru víni. Fé ég þá út 113 krónur, sem er sambærileg tala við þær, sem ég hef gefið upp hjá öðrum matstofum.

113 krónur Laugaáss eru mjög hagstæðar í samanburði við 150 krónur Torfunnar, 155 krónur Asks og Ránar, 159 krónur Vesturslóðar, 193 krónur Loftleiða (Blómasalar), 198 krónur Hlíðarenda, 208 krónur Holts, 210 krónur Nausts, 211 krónur Sögu (Grills) og 213 krónur Versala.

Matareinkunn Laugaáss var að þessu sinni sjö, þjónustueinkunn sjö og umhverfiseinkunn sjö. Ef matareinkunnin er margfölduð með fimm, þjónustu- og umhverfiseinkunnirnar með tveimur, koma út 63 stig af 100 mögulegum.

Vegin meðaleinkunn Laugaáss er því 6,5 og mundi stökkva upp í 7, ef boðið væri upp á stuttan og vel valinn vínlista.

Jónas Kristjánsson

Vikan