Laugaás

Veitingar

Það er gott að vita af Laugaási sem föstum punkti í ótryggum heimi. Tízkan hefur komið og farið, en alltaf er Laugaás nokkurn veginn eins. Þar hefur aldrei verið settur upp salatbar og austurlenzkir réttir aldrei haldið innreið sína. Matreiðslan er bara söm og jöfn, fremur góð, ekkert mjög góð -og einkum þó traust, næstum því eins og á fyrsta dagi. Þetta er matstaður, sem hefur úthald. Það er einkennilegt fyrirbæri hér á landi.

Staukur með
skyndibitasvip

Búnaður staðarins er eins og á fyrsta degi og virðist ekkert hafa slitnað á öllum þessum árum. Hér er greinilega öllu haldið við vel og snyrtilega. Stíllinn er í rauðu og hvítu, nokkuð truflaður af gulu tréverki í gluggum. Rauðköflótt er í gluggatjöldum, lampaskermum og stóláklæðum. Rautt er í stólum og lofti, en hvítt í loftbitum og veggjum.

Blómin á borðum eru raunveruleg, en pappírsþurrkustaukur á hverju borði gefur óþægilegan skyndibitasvip. Ég held, að þetta sé nýbreytni á staðnum. Ég man ekki eftir að hafa séð þessa stauka áður.

Í síðustu skiptin, sem ég hef komið í Laugaás, hefur hvorugur eigandinn verið þar. Það veldur mér nokkrum áhyggjum. Til skamms tíma höfðu þeir vaktaskipti og annar var alltaf á staðnum. Nú eru þeir búnir að setja upp útibú á jarðhæð Hótels Esju, svo að athyglin kann að vera farin að dreifast.

Matreiðslan er mjög
svo frambærileg

Ég er líka á því, að eldamennskan hafi örlítið sigið niður á við, þótt munurinn sé ekki mikill. Einkum finnst mér eldunartími hafa lengzt, þótt hann hafi raunar aldrei verið eins skammur og hann ætti að vera.

Samt er matreiðslan mjög svo frambærileg. Í samkeppni og samanburði við aðra staði nýtur hún stöðnunarinnar, sem einkennt hefur íslenzka matargerðarlist um allt of margra ára skeið.

Súpur dagsins hafa að undanförnu oft sveppasúpur, vel útilátnar og fremur góðar, en helzt til feitar. Þar fyrir utan hafa um átta fiskréttir og átta kjötréttir verið á seðli dagsins, svo að um nóg er að velja.

Hrásalat, sem borið var fram með aðalréttum, var einfalt og sæmilegt, aðallega úr rifinni rófu, hvítkáli, gulrætum og sígildri þúsundeyjasósu. Svona hrásalöt þykja ekki lengur eftirtektarverð hér á landi. Margir staðir gera miklu betur

Eftirréttir voru einfaldar og ódýrar súkkulaðifroður með ávaxta- eða súkkulaðibotni, til sýnis í glerskáp við afgreiðsluborð.

Mild meðferð
á fiskréttum

Sú venja hefur haldizt í Laugaási, að kokkarnir komi sjálfir með alréttina til borðs. Það er viðkunnanlegur siður og gefur tækifæri til spurninga um, hvernig hitt og þetta hafi orðið til.

Karríristaður steinbítur með ananas var fremur milt soðinn, fremur naumt skammtaður og borinn fram í sterkri karrísósu og með dósaananas á diskbarmi. Steikt rauðsprettuflök með rækjum og camembert voru hæfilega lítið steikt, borin fram með mildri og góðri ostasósu. Soðinn regnbogasilungur með smjöri var hóflega soðinn, en fremur bragðdaufur.

Heldur verr gekk í kjötinu. Mínútusteik með ristuðum sveppum var þó mjög meyr og góð, borin fram með bakaðri kartöflu eða frönskum kartöflum að vali gesta. Nautahryggsneið með ristuðum sveppum var bragðdauf og fremur seig, þrátt fyrir mikla fitu, yfirgnæfð af eins konar hollandaise-sósu.

Ekki var betra glóðarsteikt lambalæri með béarnaise-sósu, alveg grátt og þurrt og illa skammtað, þegar búið var að skera fituna frá. Þetta var illa gerð sunnudagssteik í gamla stílnum og vantaði bara rauðkálið upp á ljúfsárar minningar frá sjötta áratugnum. Kínverskar pönnukökur voru óvenjulega kassalaga, en að öðru leyti ekki í frásögur færandi, bornar fram með mjög góðri karrísósu og hrísgrjónum.

Fiskréttirnir eru
eftirsóknarverðir

Niðurstaða mín er, að í sumum tilvikum sé naumar skammtað en áður í Laugaási, að fiskréttir séu nokkurn veginn eins góðir og þeir hafa alltaf verið, en að kjötréttir hafi að meðaltali dalað nokkuð. Sem betur fer eru það fiskréttirnir, sem ætíð hafa laðað mest að Laugaási og gera staðinn eftirsóknarverðan enn þann dag í dag.

Miðjuverð fiskrétta með súpu og kaffi er 845-895 krónur. Miðjuverð kjötrétta er á sama hátt 985-1045 krónur. Ef við bætum við eftirrétti, fer miðjuverð staðarins á þriggja rétta málsverði upp í 1100 krónur, sem hlýtur að teljast afar hagstætt.

Ef Laugaás færi að dala, væria skarð fyrir skildi. Vonandi leiðir fjölgun veitingahúsa á vegum eigendanna ekki til þess. Slíks eru því miður of mörg dæmi.

Laugaás er orðinn að klassískum matstað, föstum punkti í ótryggum heimi íslenzkrar veitingamennsku. Mikið er því í húfi, að merkinu verði áfram haldið á lofti í Laugaási.

Jónas Kristjánsson

DV