Laugaás

Veitingar

Laugaás er franskt bistró að íslenzkum hætti. Þessi nágranni sundlauganna hefur árum saman dregið til sín hverfisbúa, sem ekki nenna að elda í kvöld, barnafjölskyldur utan úr bæ, ferðamenn utan af landi og frá útlöndum.

Í Frakklandi fer fólk í bistró til að borða góðan alvörumat fyrir 100 franka á mann í stað þess að éta hamborgara og pítsur. Á Íslandi fer almenningur af sömu ástæðum í Laugaás og borgar líka 100 franka, það er að segja 1.300 krónur fyrir súpu og aðalrétt.

Ef innréttingin væri óhreinni og þreyttari, gæti hún verið frönsk. Þarna eru köflóttir borðdúkar, ljósaskermar og gluggatjöld, svo og þægilegir tréstólar. Full þjónusta er komin til sögunnar og borð boðstólum.

Andrúmsloftið er mettað venjulegu fólki, innlendu og erlendu, sem nýtur slökunar og samræðna yfir mat, er ekki stendur á sporði þess, sem annars staðar er boðið á 3.600 krónur á mann. Hér koma hvorki uppar né ímyndunarfræðingar. Hér hef ég aldrei heyrt í gemsa.

Í hádeginu fást hefðbundnir dansk-íslenzkir millistríðsréttir á 890 krónur með súpu. Þar á meðal var indæll plukfisk, þar sem saman var blandað ýsu, kartöflum og lauki, borinn fram með volgu rúgbrauði. Ennfremur angurværar frikadeller með rauðrófum og pönnueggi. Það vantaði ekkert nema rødgrød med fløde.

Saltfiskurinn var vel útvatnaður, borinn fram með sterkri tómatbasilsósu og miklu af olífum, en hvorki lauki né papriku, hvergi betri í landinu nema í Þremur Frökkum. Rauðar og meyrar skarfabringur voru líka góðar, bornar fram með sólberja- og grænpiparsósu.

Auk skarfa má fá lunda, grágæs og sel af villibráðarseðli. Af fiskréttum má nefna djúpsteiktan steinbít í súrsætri sósu, pönnusteikt ýsuflök með lauk og tómati og ofnbakaða bleikju með rækjum. Í öllum tilvikum er eldun fiskjar traust og eldunartímar skammt yfir eðlilegu marki.

Laugaás gælir líka við illræmda þjóðarrétti á borð við djúpsteikta ýsu í deigi með béarnaise-sósu og frönskum kartöflum og glóðarsteikt lambalæri með sömu béarnaise-sósunni og sömu frönsku kartöflunum.

Súpur Laugaáss eru ómerkar hveitisúpur að þjóðlegum hætti. Hrásalatið er jafnan nákvæmlega eins ár eftir ár, áratug eftir áratug, raspað hvítkál með þúsundeyjasósu. Og í eldhúsinu elska menn þjóðlega ostbökun fiskrétta, svokallaða gratineringu.

Einn bezti matur Laugaáss reyndist vera fiskisúpa, þykk chowder að bandarískum hætti, ljósrauð rækju- og laxasúpa með þeyttum rjóma, afar bragðgóð og matarleg.

Jónas Kristjánsson

DV