Laugaás

Veitingar

Sögufrægur Laugaás er farinn að éta viðskiptavildina. Matreiðslu hefur hrakað og verð hækkað um 23% frá sama tíma í fyrra. Nú kostar 1600 krónur að borða í stað 1300 króna áður. Samt flykkist leiðitamt fólk á staðinn.

Matseðillinn dofnaði í vetur og hefur verið óbreyttur síðan í marz. Villibráð og saltfiskur eru horfin, fiskréttum hefur fækkað, en kjöti og pöstum fjölgað. Kokkarnir fyrirverða sig og eru hættir að bera sjálfir fram aðalrétti. Þjónusta lætur fólk komast upp með að reykja í reyklausa hlutanum og á sumpart erfitt með að muna, hvað fólk hefur pantað.

Tvennt hefur batnað. Vínlistinn er lengri og hveitigrautur víkur stundum fyrir tærri grænmetissúpu sem súpa dagsins. Hins vegar hefur hveitigrautur magnazt svo í sumum sósum, að þær hníga varla undir skáninni. Komið hefur fyrir, að skammtar séu þriðjungi minni að magni en áður var. Eldunartímar hafa lengzt, einkum á fiski, kjúklingi og grænmeti. Og ýsan var í eitt skiptið ekki ný.

Glerplötur á borðdúkum undirstrika, að Laugaás er ekki lengur hefðbundin bistró að evrópskum hætti, heldur nýmóðins aðferð við að hagræða í atvinnulífinu. Staðurinn er nú kallaður: “Café Restaurant” til að minna á horfna daga.

Þrátt fyrir verðhækkunina heldur hann fjórum blómum, því að enn er hann tiltölulega ódýr.

Jónas Kristjánsson

DV