**
Mín fortíðarþrá
Þegar ég kem seint í bæinn um helgar og nenni ekki að elda, fer ég stundum í Laugaás á horni Laugarásvegar og Sundlaugavegar vegna þægilegs verðlags, bílastæða og notalegs andrúmslofts, en einkum þó vegna fortíðarþrár. Laugaás var byltingin í veitingamennsku landsins fyrir aldarfjórðungi, þegar ég byrjaði að skrifa veitingarýni.
Innréttingar eru hinar sömu, jafnvel innbrenndar flísar og köflótt tjöld eru upprunaleg. Andrúmsloftið er að hætti franskrar bistró. Hér þekkjast margir fastagestir, mest fólk við aldur, en einnig fjölskyldur og ungt fólk, sem lætur ekki farsíma trufla sig. Upprunalegi eigandinn eldar stundum sjálfur og kokkarnir bera oftast fram aðalréttinn.
Sumt hefur batnað í Laugaási. Á aðventunni fæst villibráð, grágæs og heiðagæs, stundum langvía og önd eða lundi og selur, allt saman vægt eldað og meyrt, ekki síðra en í dýrustu veitingastofum landsins. Hér kostar þriggja rétta villibráðarseðill ekki nema 3190 krónur. Einnig var jólaseðill á 3390 krónur og nautaseðill á 2990 krónur.
Annað er eins og það hefur alltaf verið, hversdagslegt rófusalat og þykk hveitisúpa, oftast sveppasúpa, hvort tveggja innifalið í verði aðalrétta, sem kosta um 1800 krónur. Djúpsteikingar og ostbakanir, béarnaise-sósur og franskar kartöflur hafa alltaf tíðkast á þessum stað. En kaffi hefur alltaf verið gott og smekklega fram borið.
Loks eru atriði, sem hafa versnað. Ekki er lengur matseðill dagsins með mörgum tegundum af ferskum fiski. Nú eru í mesta lagi tvær tegundir af fiski á matseðli dagsins og oftast báðar upp úr frysti. Frosin rauðspretta leynir sér ekki, því að hún er nánast óæt, þótt fastagestir Laugaáss láti sér hana vel líka eins og annað, sem hinum trúföstu er borið.
Allt þetta var nákvæmlega staðfest í tvígang á aðventunni. Selapiparsteik og heiðagæs var hvort tveggja rósrautt, meyrt og bragðgott, lambalæri grátt og guggið og sjávarréttagratín mikið eldað og freðfiskurinn auðvitað orðinn þurr. Í bæði skiptin var staðurinn þétt setinn klukkan sex að kvöldi og andrúmsloftið þrungið góðborgaralegri og látlausri hamingju.
Jónas Kristjánsson
DV