Lausafylgið bíður

Greinar

Staða Jóhönnu Sigurðardóttur í stjórnmálunum minnir á stöðu Vilmundar Gylfasonar og Alberts Guðmundssonar, þegar þeir buðu fram sérstaka lista í alþingiskosningum. Eins og þeir dregur hún að sér mikið lausafylgi, sem ekki nýttist framboðslistum þeirra á kjördegi.

Samkvæmt skoðanakönnun DV nýtur Jóhanna fylgis 6-7% kjósenda. Það ætti að nægja henni fyrir fjórum þingmönnum, ef kosið væri núna. Samkvæmt sömu könnun nýtur Jóhanna velvildar miklu fleiri kjósenda, um 30%, án þess þó að hafa allt það viðbótarfylgi í húsi.

Lausafylgið í landinu er núna orðið meira en það var í tíð Vilmundar og Alberts. Samanlagt eru velvildarmenn Jóhönnu og hinir óákveðnu meira en helmingur allra kjósenda. Þetta sýnir, að stjórnmálaflokkarnir hafa samanlagt ekki sniðið sig að þörfum helmings kjósenda.

Þótt gerðir Jóhönnu séu umdeildar, nýtur hún trausts fyrir það að vera heiðarleg og sjálfri sér samkvæm. Þeir hæfileikar eru ekki útbreiddir í stjórnmálum landsins. Þess vegna er hún vinsælust allra stjórnmálamanna og þess vegna mun hún koma nokkrum mönnum á þing.

Samkvæmt fyrri reynslu mun velvildarfylgið aðeins nýtast Jóhönnu að litlum hluta. Hún getur sjálf ekki skipað öll sætin á öllum framboðslistum flokks hennar. Hún verður að sýna frambjóðendur, sem njóta mun minna trausts en hún nýtur sjálf um þessar mundir.

Til þess að brjóta upp flokkakerfi, sem ekki hefur reynzt svara þörfum tímans, nægir ekki að hafa eina persónu sem eina aðdráttaraflið. Þess vegna náðu Vilmundur og Albert aðeins í hluta lausafylgisins og aðeins til skamms tíma. Hið sama virðist vera að gerast núna.

Samkvæmt fyrri reynslu er ekki auðvelt að byggja stjórnmálaflokk utan um einn stjórnmálamann, þótt hann njóti mikils trausts. Sú reynsla segir þó ekki, að ókleift sé að virkja lausafylgið í landinu, ef byggt væri á fleiri hornsteinum en einum vinsælum stjórnmálamanni.

Hingað til hefur lausafylgið ráfað milli flokka og stundum leitað að hluta útrásar í stuðningi við skyndiframboð. Enginn hefur náð að stöðva rásið og virkja það í þágu tiltölulega fastmótaðs stjórnmálaafls. Jóhönnu mun ekki takast það einni frekar en Vilmundi eða Albert.

Það er þó enginn ósigur fyrir Jóhönnu og sjónarmið hennar, þótt hún verði bara einn af mörgum þingflokkum eftir næstu kosningar. Ef hún fer á þing við fjórða mann, hefur hún að mörgu leyti betri aðstöðu til að hafa áhrif en hún hafði í húsmennsku hjá spilltum Alþýðuflokki.

Til þess að brjóta upp flokkakerfið nægir ekki heldur að fara hina leiðina, sem Kvennalistinn hefur farið, að slátra öllum stjórnmálakonum sínum, sem hafa aðdráttarafl, og sitja nú uppi með einkar svipdauft lið, er aðeins dregur til sín harðasta kjarna hugsjónafólksins.

Ef til vill þarf hvort tveggja í senn, trúverðuga forustu og hugmyndafræði, sem höfðar til lausafylgisins í heild, til þess að nýtt framboð geri meira en að valda tímabundinni skelfingu í flokkakerfinu. Ef til vill þarf eitthvað fleira en þetta tvennt til að líma pakkann saman.

Jóhanna hefur valdið skelfingu í flokkakerfinu. Vinsældir hennar í skoðanakönnun urðu stjórnmálamönnum í öllum flokkum tilefni til að mynda hræðslubandalag gegn haustkosningum. Þeir vilja fresta vandanum, enda kann bóla Jóhönnu að hjaðna nokkuð í vetur.

Jóhanna er tæplega því hlutverki vaxin að sópa burtu úreltu flokkakerfi. En það er hægt og verður einhvern tíma gert. Svo mikið er orðið lausafylgið í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV