Lausn á lífeyrisstríði

Greinar

Ríkið hefur fyrir hönd skattgreiðenda hagsmuna að gæta í frumvarpi um skyldutryggingu lífeyrissjóða. Það léttir á ríkissjóði og skattgreiðendum, að allir landsmenn séu skyldaðir til að afla sér sjálfir einhvers lágmarks í lífeyri á elliárunum, óháð fjölda þessara ára.

Fræðilega séð geta félagar í séreignasjóðum orðið meiri byrði á ríkinu og skattgreiðendum en félagar í sameignarsjóðum. Hinir fyrrnefndu geta kosið að taka lífeyri sinn út á tíu árum, en lifa svo ef til vill í tuttugu ár og geta þá orðið fjárhagsleg byrði síðari áratuginn.

Hins vegar er algengt, að félagar í séreignasjóðum greiði iðgjöld af svo háum launum, að það sé langt umfram þau mörk, sem ríkið þarf fyrir hönd skattgreiðenda að hafa áhyggjur af. Eðlilegt er, að þetta fólk hafi frelsi til að velja sér lífeyrisform af umframtekjunum.

Óþarft er að skylda fólk til að greiða í sameignarsjóði af launum, sem eru umfram 150 þúsund krónur á mánuði. Með núverandi ávöxtun lífeyrissjóða ættu slík iðgjöld að nægja til að standa undir elliárum fólks, án þess að ríki og skattgreiðendur komi til skjalanna.

Hægt er koma til móts við hin ýmsu málefnalegu sjónarmið og gæta hagsmuna skattgreiðenda með því að miða lífeyrissjóðsgreiðslur við 10% launa eins og nú er gert, en setja í lögin breytilegt hámark, er nægi á hverjum tíma til að tryggja sjóðfélögum ævikvöldið.

Þegar náð er hámarkinu, sem núna gæti numið 150.000 króna mánaðartekjum, má lækka skylduna úr 10% niður í til dæmis 3%, en leyfa fólki að leggja mismuninn í séreignasjóð. Sé samið um meira en 10% iðgjaldagreiðslur, ætti mismunurinn á sama hátt að vera frjáls.

Gera þarf séreignasjóðunum kleift að nota fyrirhuguð samtök sín til að stofna lífeyrissjóð utan um þann hluta veltunnar, sem er á sviði sameignarsjóða samkvæmt ofangreindri skilgreiningu. Einnig þarf að gera lífeyrissjóðum kleift að standa á sama hátt að séreignasjóðum.

Loks er æskilegt að koma á aukinni samkeppni milli lífeyrissjóða með því að auka frelsi fólks til að velja milli lífeyrissjóða. Það mundi soga lífeyri til sjóðanna, sem mesta ávöxtun hafa, frá sjóðunum, sem minnsta ávöxtun hafa. Rekstur sjóðanna mundi almennt batna.

Kerfið, sem hér hefur verið lýst, þjónar mörgum hagsmunum í senn. Það gætir hagsmuna ríkis og skattgreiðenda. Það eykur frelsi fólks til að velja sér form á sparnaði til elliáranna. Og það eykur samkeppni milli sjóðanna, sem taka að sér að ávaxta lífeyri fólks.

Setja þarf í lífeyrisfrumvarpið tvöfalt þak prósentu og krónutölu í stað eins prósentuþaks, ákvæði um sameignardeildir í séreignarsjóðum og um aukið frelsi fólks til að velja milli lífeyrissjóða. Þannig breytt getur frumvarpið orðið þjóðinni til heilla og eflt öryggi hennar.

Deilan um frumvarpið snýst því miður ekki nema að hluta um þessi málefnalegu atriði. Að meginstofni eru tvær voldugar valdamiðstöðvar að takast á um mikið fé. Annars vegar eru aðstandendur lífeyrissjóða og hins vegar eigendur og stjórnendur peningafyrirtækja.

Félagsmálaberserkir samtaka vinnumarkaðarins í stjórnum lífeyrissjóða standa annars vegar og hins vegar stjórnendur og aðrir aðstandendur tryggingafélaga, banka, fjármagnsfyrirtækja og annarra stofnana, sem vilja komast í keppnina um sparnað almennings.

Alþingismenn þurfa að greina milli þessa hagsmunastríðs og hinna málefnalegu atriða, sem ekki eru flóknari en svo, að á þeim má finna skynsamlega lausn.

Jónas Kristjánsson

DV