Lausnarinn er kominn.

Greinar

Hinn mikli lausnari efnahagsvandræða er kominn aftur. Hann reyndi að stjórna íslenzka lýðveldinu fyrir nokkrum árum. Nú ætlar hann að reyna aftur, brynjaður reynslu úr útlendu alvöru-efnahagslífi lítillar verðbólgu.

Styrkur lausnarans felst í að skilja fordóma lélegra stjórnmálamanna og koma þeim í vitrænt form, svo að misþyrma megi efnahagslífinu á skipulegan og formlegan hátt, í stað þess að láta verðbólguna eina um að gera það.

Einn höfuðvandi líðandi stundar er, að stjórnmálamenn hafa svo mikla óbeit á verðbólgunni, að ætla mætti, að hún hafi gert þeim eitthvað. Hinn vandinn felst í svo mikilli óbeit þeirra á alþýðunni, að ætla mætti, að hún hafi gert þeim eitthvað.

Þess vegna má búast við, að undir öruggri handleiðslu lausnarans verði mynduð sterk meirihlutastjórn um tvær fagrar hugsjónir. Önnur er fólgin í að afnema hitamæli efnahagslífsins og hin í að skerða lífskjör fólksins.

Eitt af því, sem hlýtur að hljóma eins og svanasöngur á heiði í eyrum Framsóknarflokksins, er gengiskafli síðustu prédikunar lausnarans. Þar var mælt með festingu gengis íslenzku krónunnar um nokkurra mánaða skeið í senn.

Ef lausnarinn vildi nú flytja nýja prédikun og mæla þar með lækkun vaxta, væri síðustu hindruninni rutt úr vegi Framsóknarflokksins. Hann gæti gengið fagnandi inn í ríkisstjórnarsælu með mikilvægustu fordóma sína óskerta.

Þjóðhagslega æskilegra hefði samt verið, að lausnarinn prédikaði um, að hvernig sem verðbólgunni líði, sé alltaf nauðsynlegt að skrá gengi krónunnar í lægri kanti raunvirðis hennar. Slíkt hafa aðrir gert með góðum árangri.

Þá mundi notkun Íslendinga á vöru og þjónustu mjakast frá innfluttri til innlendrar. Útflutningsatvinnuvegirnir færu að græða á nýjan leik. Viðskiptahallinn mundi hverfa og skuldasöfnun í útlöndum minnka eða hverfa.

Þjóðhagslega æskilegra hefði líka verið, að lausnarinn prédikaði ítarlegar um, að hvernig sem verðbólgunni líði, sé alltaf nauðsynlegt að skrá vexti svo háa, að þeir séu jákvæðir um 1-4% í raun.

Þá mundi minnka notkun Íslendinga á ýmissi óþarfri vöru og þjónustu, einkum innfluttri. Í þess stað mundi streyma sparifé inn í bankana til nauðsynlegrar blóðgjafar í atvinnulífinu. Tilraun í þessa átt gafst vel í hittifyrra.

En lausnarinn prédikar ekki nógu mikið um slíkt, af því að hann veit, að þetta fellur ekki að fordómum hinna lélegu stjórnmálamanna og þráhyggju þeirra í garð verðbólgunnar og alþýðunnar. Þess vegna talar hann um fast gengi.

Á þessu ári einu mun kaupmáttur tekna rýrna um 8- 9% á mann, sem er heldur meira en samanlagður 8% samdráttur þjóðartekna á tveimur kreppuárum, 1982 og 1983. Og þetta gerist án frekari aðgerða stjórnmálamanna, 1. júní eða síðar.

Nær væri þeim að viðurkenna, að hvorki verðbólgan né alþýðan hefur gert þeim neitt. Þeir ættu að láta þessa sakleysingja í friði og snúa sér að einhverri gagnlegri iðju, til dæmis snúa sér að því að rétta gengið og vextina.

En lausnarinn mikli er kominn frá útlöndum til að segja lélegum stjórnmálamönnum það, sem þeir vilja heyra. Þannig fá þeir þá efnahagsráðgjöf, sem þeir eiga skilið, – við taumlausan fögnuð síðasta Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins.

Jónas Kristjánsson

DV