Laut

Veitingar

Mér brá rækilega, þegar ég las: “Þessi vínseðill er saminn samkvæmt tillögum frá Jónasi Kristjánssyni ritstjóra”. Það rifjaðist upp fyrir mér, að ég hafði einu sinni gefið veitingamanni Lautar góð ráð í síma. Hvorki í því samtali né síðar var ég beðinn leyfis um slíka notkun nafns míns. Enda hefði ég aldrei lagt nafn mitt við tvær tegundir af Liebfraumilch og eina af Moselblümchen.

Því miður hafa síðari tíma athuganir mínar leitt í ljós, að ráðleggingarnar voru úreltar í þessu tilviki. Samt hafa þær dugað til að gera vínlista Lautar hinn bezta á Akureyri og með hinum betri á landinu. Það er nógu ánægjulegt til þess, að ég læt hér með niður falla frekara rex út af máli þessu.

Laut er einn nýjasti vonarpeningurinn í yfirfullu framboði vínveitingahúsa á Akureyri. Salurinn hefur verið innréttaður í kjallara Hótels Akureyrar sem þáttur í alhliða endurnýjun þess. Helzt trompið er legan við göngugötuna í bæjarmiðju. Laut er eini veitingasalurinn, sem beinlínis er við þá götu. Enda eru gestirnir byrjaðir að slæðast inn.

Laut er snyrtilega innréttaður staður fyrir 35 manns í sæti. Tveir falskir bogagluggar veita þægilegri birtu í gluggalausan salinn. Veggir ofanverðir og loft eru í ljósu. Dökkbrúnir burðarbitar eru lítt áberandi. Ein mjó spegilsúla er í salnum. Á gólfi eru stórar flísar. Gamaldags ljósakrónur með síðu kögri eru yfir hverju borði. Húsbúnaður er vandaður og borðin klædd brúnum dúkum. Að kvöldi voru munnþurrkur úr taui, en úr pappír í hádegi.

Rjómakökuskápur úr gleri skilur að matsal og blending af skenk og bar. Þar er vifta í lofti og spegill yfir rauðplussuðum langsófa, sem raunar endurtekur sig á tveimur stöðum í sjálfum borðsalnum. Á milli er múrsteinsstæling, sem er eina smekkleysan um borð, ef gestir láta sér málverkin í léttu rúmi liggja.

Matseðill Lautar er miðlungi langur, með fimm forréttum, níu aðalréttum og fjórum eftirréttum. Til viðbótar eru helgarkvöldseðill og hádegisseðill með þremur aðalréttum hvor. Flestir réttirnir hljóma kunnuglega og lítt spennandi. Þó má sjá þar rauðvínssteikta smálúðu og túnfíflasósu með turnbauta, svo og appelsínutertu.

Á lágu kaupi

Þrátt fyrir nokkuð myndarlegt verðlag reynir Laut að sleppa billega frá þjónustukostnaði. Í stað fagfólks eru notaðar stúlkur, væntanlega á lágu kaupi. Þær eru elskulegar og gera sitt bezta, en kunna auðvitað ekki nóg. Glös voru hellt næstum eins full og hjá Íslandsbersa á Pallas. Vatn fékkst ekki sjálfkrafa. Hvítvín var ekki geymt í kælingu við borð. Kaffið kom með eftirréttunum, svo að þeir, sem vildu drekka það á eftir, urðu að hafa það kalt. Útvarpsauglýsingar glumdu í hádeginu.

Í Hótel- og veitingaskólanum lærir fólk að forðast ótal smáatriði af þessu tagi. En heimtar auðvitað hærra kaup í staðinn.

Ristaðar flautusneiðar með rækjuídýfu voru skemmtilegur og ókeypis lystauki fyrir kvöldverð meðan matseðillinn var skoðaður. Þetta er ánægjuleg og eftirtektarverð nýjung.

Stóra slysið í Laut var matreiðslan. Grundvöllur hennar reyndist vera ofurást á bráðnu smjöri, sem flaut í stríðum straumum um aðalréttina og eyðilagði allan mat, sem það komst í tæri við. Þessi sorgarsaga endurtók sig í tveimur atrennum, svo að þetta hlýtur að stafa af ásetningi.

Einna bezti maturinn reyndist vera bragðsterk humarsúpa með stórum humarbitum, þykk af rjóma. Blaðlaukssúpa var sæmileg. Báðar voru bornar fram með hveitiflautu og smjöri í álpappír fyrir flugfarþega og Þjóðverja.

Svokölluð rækjumús reyndist hvorki vera nagdýr né stappa, heldur tartalettur undir fölsku flaggi. Rækjurnar voru meyrar, en komust ekki að í bragði, af því að sveppirnir og brandíið yfirgnæfðu. Sveppirnir voru ánægjulega ferskir.

Reyktur lax og graflax saman á diski voru svipaðir og við má búast. Sá reykti minnti raunar skemmtilega á saltreyð. Rjómasósan með öflugu sítrónubragði og nærri engu sinnepsbragði var í sjálfu sér nýjung, en ég er ekki viss um, að hún henti þessum rétti.

Hrásalat á undan eða með aðalréttum var ekki á dagskrá Lautar, þótt allt í kring séu matsalir, sem ýmist bjóða upp á salatdiska eða jafnvel sérstök salatborð.

Hlutföll í ólagi

Skötuselurinn var eini aðalrétturinn, sem ekki flaut í smjöri. En einnig hann einkenndist af sama ruglinu í hlutföllum og aðrir réttir. Hann var borinn fram með sveppum, er yfirgnæfðu bragðið, sem ella hefði getað fundizt af skötuselnum.

Pönnusteiktur karfi var borinn fram með reyktum laxi, sem líka var hitaður. Karfinn beið herfilegan ósigur, því að reykti laxinn var eins og skinka á bragðið, þegar hann hafði verið hitaður. Sú hitun er nánast forkastanleg út af fyrir sig, þótt hún sé ekki einnig notuð til að misþyrma karfa. Í þessu tilviki var samkeppnin milli skinkubragðsins og bragðsins af smjörinu, sem flaut um allt.

Smálúðan var fyrst pönnusteikt og síðan ofnbökuð með osti. Eftir þá meðferð alla var hún orðin þurr, borin fram á floti í smjöri, fremur vondur matur, en þó skásti aðalrétturinn.

Lambahryggjarsneiðarnar voru bornar fram undir gífurlegu fjalli af skinkuræmum, sem yfirgnæfðu lambið algerlega og háðu harða samkeppni við smjörflóðið. Kjötið var pönnusteikt, grátt í gegn og minnti helzt á snitzel.

Eftirréttirnir björguðu málum í horn. Blandaðir, ferskir ávextir, appelsínur, kiwi og blá vínber, voru bæði fallegir og góðir. Afar líkjörsþrungin appelsínuterta með sterku barkarbragði var bæði óvenjulegur og fínn eftirréttur. Þunnt kaffi var borið fram með After Eight.

Af þessum lýsingum má ráða, að í matreiðslu Lautar hafi skort tilfinningu fyrir, hvað ætti saman í rétti og í hvaða hlutföllum. Smjörástin kom svo í ofanálag eins og fjandinn úr sauðarleggnum.

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi og hálfri flösku af frambærilegu víni var 1076 krónur á mann af fastaseðli. Ef tekið er tillit til helgarseðils og hádegisseðils, lækkar þetta um 15-30 krónur. Að þessu leyti er Laut í verðflokki með Kjallaranum, nokkru ódýrari en Smiðjan, Mánasalur og Kea, en dýrari en Bautinn.

Ef hins vegar eingöngu er valið af þriggja rétta hádegisseðli og eftirrétturinn þá tekinn úr aðalseðlinum, verður útkoman 700 krónur á mann. Verðið er samkeppnishæft við Bautann, en úrvalið miklum mun minna.

Taka verður fram, að verð Lautar rokkaði upp og niður í sumar, var aldrei eins í þremur heimsóknum. Það var eins og enn væri verið að leita að verðlagi staðarins.

Jónas Kristjánsson

Hádegisseðill:
90 Rjómalöguð blómkálssúpa
270 Steikt smálúða með kræklingi og rækjum
390 Litlar lamba-piparsteikur
420 Grísasneiðar Óskar

Helgarkvöldseðill:
110 Humarsúpa með koníaki
320 Steiktur karfi með reyktum laxi
460 Lambalundir með rauðvínssósu og piparsósu
590 Grísasneiðar með appelsínusósu
140 Ferskt ávaxtasalat

Fastaseðill:
280 Reyktur lax og graflax með chantilly-sósu
240 Rækjumús með koníaks-flamberuðum sveppum
180 Gratineruð lauksúpa með púrtvíni
160 Villisveppasúpa
420 Fiskisúpan okkar
420 Sjávarréttagratín
440 Rjómasoðinn skötuselur í sveppasósu
380 Steikt smálúða með rækjum, möndlum og rúsínum í rauðvíni
890 Turnbauti með túnfíflasósu
780 Piparþrenna með piparsósu
530 Lambahryggur með hvítlauk og steinselju
490 Lambakótilettur með kryddjurtum
560 Grísasneiðar Gorgonzola
420 Kjúklingabringa með vínberjum og rjómabrandísósu
140 Appelsínusorbet með grenadin-rjóma
95 Blandaðir ísar með líkjör
130 Kökuvagninn
150 Ostabakki

DV