Leggjabrjótur

Frá Skógarhólum á Þingvöllum um Leggjabrjót til Hvalfjarðar.

Leiðin er vel vörðuð.

Forn þjóðleið og enn vel sýnileg vegna umferðar hestamanna nú á tímum. Nafnið segir okkur, að miðkafli leiðarinnar var grýttur og erfiður yfirferðar. En fleira brotnaði hér en leggir. Á miðri heiðinni er Biskupskelda, kennd við drykkfelldan Gísla Magnússon Hólabiskup, sem vildi komast í brennivínstunnu á klakki. Ekki vildi betur til en svo, að sá atburður gerðist, sem lýst er í þessari vísu: “Tunnan valt og úr henni allt / ofan í djúpa keldu. / Skulfu lönd en brustu bönd, / botngjarðirnar héldu.” Að fornu lögðu kaupmenn skipum sínum í Maríuhöfn sem er fremst í nesinu milli Laxárvogs og Hvalfjarðar. Þaðan var stutt að fara á Þingvöll og falbjóða þingheimi varning langt að kominn.

Förum frá Skógarhólum vestur og norður slóða að Svartárkoti, beygjum síðan til vesturs um Öxarárdal, fyrst eftir dráttarvélaslóð milli Botnssúlna að norðan og Búrfells að sunnan. Nokkuð austan Myrkavatns beygjum við síðan til norðurs með Súlnaá upp á Leggjabrjót, í 500 metra hæð, og förum með austurhlið Sandvatns, milli vatnsins og Biskupskeldu. Þar tekur við Botnsheiði. Við höldum okkur á Botnsheiði austan og ofan við drög Brynjudals. Förum síðan niður af heiðinni um Hrísháls ofan í botn Botnsdals og síðan norðvestur að Stóra-Botni í Hvalfirði.

21,7 km
Árnessýsla, Reykjavík-Reykjanes

Skálar:
Skógarhólar: N64 17.779 W21 04.807.

Nálægir ferlar: Bláskógaheiði.
Nálægar leiðir: Selkotsvegur, Kóngsvegur, Skógarkot, Lyngdalsheiði, Eyfirðingavegur, Gagnheiði, Reynivallaháls, Múlafjall, Grillirahryggur.

Skrásetjari: Kortavefur LH
Heimild: Kortavefur LH