Leiðari

Punktar

Þrjú stórmót erlendis

Íslandsmótið og ferðasögur frá sumrinu einkenndu síðasta tölublað Eiðfaxa. Þetta tölublað heldur áfram ferðasögum og frásögnum af mikilvægum mótum, að þessu sinni Norðurlandamóti, Þýzkalandsmóti og Miðevrópumóti. Þetta hefur verið síðsumar mikilla sumarferða innanlands og mikilla móta erlendis, sem framvegis munu vonandi einkenna Eiðfaxa með árstíðarbundnum hætti.

Fjárhagur Eiðfaxa hefur batnað svo mjög síðustu mánuði, að nú höfðum við í fyrsta skipti í sögunni efni á að senda fulltrúa blaðsins til að fylgjast með helztu mótum erlendis. Kolbrún Kristín Ólafsdóttir sá um Norðurlandamótið með aðstoð myndatökumanna Broncophoto í Svíþjóð. Eyþór Árnason sá um Þýzkalandsmótið og Jón Finnur Hansson um Miðevrópumótið. Það skiptir miklu fyrir marga lesendur að geta fylgzt með helztu mótum, helztu knöpum og helztu hestum á mikilvægustu mótum í heimi Íslandshesta, næst á eftir landsmótum og heimsleikum, sem jafnan ná yfir heil tölublöð af Eiðfaxa.

Hagnýt ráð um ferðir

Þótt keppnisgreinar séu Eiðfaxamönnum jafnan ofarlega í huga, höldum við fullum dampi á öðrum sviðum. Ferðasögur og leiðbeiningar um ferðalög hafa um langt skeið verið umsvifamikið efni á síðum blaðsins. Hagnýtar leiðbeiningar hafa verið meira áberandi en oft áður og jafnvel stuðað suma, sem telja ekki gagnlegt að lesa misjafnar lýsingar ferðamanna á fótabúnaði sínum. Áhugamenn um ferðir hafa þó margir hverjir mikinn áhuga á slíku. En þannig hafa sumir áhuga á mótum, aðrir á ferðum, en ekki allir á hvoru tveggja. Framfarir í reiðvegum og reiðleiðum hafa einnig verið Eiðfaxa hugleiknar að undanförnu, kortagerð og GPS-hnitapunktar.

Ýmis hagsmunamál hestamanna eru nánast hvergi til umfjöllunar nema á síðum Eiðfaxa. Þar á meðal má nefna spattið, sumarexemið og fyljunarprósentuna, sem Eiðfaxi hefur einn fjölmiðla á sviði hestamennskunnar tekið rækilega fyrir. Einnig má nefna fjármál hrossaræktar, sem voru krufin til mergjar í 1. tölublaði þessa árs. Sumarexemið var tekið fyrir nokkrum sinnum í blaðinu í fyrra og á þessu ári, fyljunarprósentan í 9. tölublaði í fyrra. Ein grein er núna í blaðinu um sumarexem og sýnir hún, hversu fjarstæðukennt er að leiða vandamálið hjá sér.

Kristinn Guðnason um spatt

Í 6. tölublaði Eiðfaxa í fyrra var talað við sérfræðinga og hagsmunaaðila um stöðu spattsins í hrossarækt á Íslandi. Viðbrögð sérfræðinga voru þess eðlis, að vænta mátti, að breytingar yrðu senn tímabærar. Þær komu svo með alþjóðlegri ráðstefnu dýralækna á Selfossi í tengslum við landsmótið. Eiðfaxi sagði frá erindum ráðstefnunnar í 6. tölublaði þessa árs. Þar komu fram upplýsingar úr ýmsum áttum, sem bentu til, að tímabært væri orðið að taka í festu á spattinu.

Í þessu tölublaði er svo viðtal við Kristin Guðnason, formann Félags hrossabænda, þar sem fram kemur að tekið verður fast á spattinu á kynbótasýningum næsta árs. Ekkert af þessu efni má lesa annars staðar en í Eiðfaxa.

Ágúst Sigurðsson er að hætta

Til marks um þessi ritstjórnarmarkmið blaðsins má hafa ítarlegt viðtal við Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunaut í 4. tbl þessa árs, þar sem hann útlistaði fjölbreyttar hugmyndir um framfarir í hrossarækt og hestamennsku, sem eiga erindi til allra, sem starfa á þessu sviði. Hann lýsti m.a. hinum fjölhæfa hesti og hvatti meðal annars til, að undirbúið yrði að mæla þol, mýkt, kjark og taugastyrk í kynbótahrossum. Hann lagði líka áherzlu á heilbrigðismál hestsins, einkum aðgerðir gegn sumarexemi, spatti og lágri fyljunarprósentu.

Nú hefur Ágúst tekið við öðru mikilvægu embætti og verður því framvegis ekki til ráðstöfunar fyrir hestamenn með sama hætti og áður. Vegna frumkvæðis hans á síðustu árum; breytinga, sem hann hefur staðið fyrir; og vegna einstakra hæfileika til að framkvæma breytingar í sátt við alla menn, verður erfitt fyrir eftirmanninn að feta í fótspor hans. Fyrir hestamenn skiptir hins vegar miklu, að eftirmaðurinn grípi strax fána fyrirrennarans og haldi ótrauður áfram að ýta á eftir framfaramálum í greininni.

Eina fagritið um hestinn

Margir fjölmiðlar segja frá hestum. Fyrir utan Morgunblaðið er Eiðfaxi eini fjölmiðillinn, sem kostaður er af lesendum sjálfum og sá eini, sem kostaður er af hestamönnum. Fyrir bragðið hefur Eiðfaxi færi á að kynna margvísleg mál faglegs eðlis, sem eru utan sjóndeildarhrings annarra fjölmiðla á þessu sviði, sem einkum beina athygli sinni að auglýsingum og afþreyingu. Eiðfaxi er eina fagrit íslenzkrar hestamennsku, gefið út á þremur tungumálum, íslenzku, ensku og þýzku.

Þær staðreyndir, sem raktar hafa verið hér að ofan, sýna sérstöðu Eiðfaxa. Sem betur fer hefur blaðið verið rekið taplaust í tæp tvö ár og þar með hafa aukizt burðir þess til að standa undir hlutverki alþjóðlegs fagrits um íslenzka hestinn.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 8.tbl. 2004