Leiðin er fær, en ekki bezt

Greinar

Leiðin er fær, sem ríkisstjórnin hefur valið fyrir ferð þjóðarinnar um mögru árin. Flestir hagsmunaaðilar skilja, að gera verður nokkurra ára hlé á ofveiði þorsks. Flestir aðilar vinnumarkaðar skilja, að ekki verður komizt hjá rýrari lífskjörum og auknu atvinnuleysi.

Dæmið gengur upp í stórum dráttum, ef stjórnvöld treysta sér til að koma svipuðum böndum á smábátaeigendur og þau hafa komið á aðra útgerð og ef þau treysta sér til að neita opinberum starfsmönnum um svipaða miskunn og þau hafa neitað öðru launafólki í landinu.

Þetta er merkileg þjóðarsátt, sem mun koma í veg fyrir, að Íslendingar lendi í færeyska vítahringnum. Þótt við höldum að einhverju leyti áfram að lifa um efni fram, er eðlismunur á því og hinum gersamlega óraunhæfu lífskjörum Færeyinga. Við munum halda frelsinu.

Við erum seig, þegar syrtir í álinn, þótt við höfum ekki reynzt hafa bein til að þola góða daga. Þeir eiginleikar, sem komu í veg fyrir, að við gætum nýtt okkur velgengni síðustu áratuga, hjálpa okkur til að standast mótlæti síðustu ára og nokkurra næstu ára í viðbót.

Þjóðarsáttin felur meðal annars í sér, að lækkað verði risið á velferðarkerfi almennings. Það verður til dæmis dýrara að veikjast og dýrara að afla sér þekkingar. Þjónusta hins opinbera á þessum sviðum mun verða dýrari og lakari en hún hefur verið til skamms tíma.

Þetta felur í sér aukna stéttaskiptingu, því að þeim fjölgar, sem ekki hafa ráð á að veikjast eða afla sér þekkingar. Mikið og vaxandi atvinnuleysi mun einnig stuðla að aukinni stéttaskiptingu í landinu. Þjóðarsáttin framleiðir þannig ný vandamál, þegar hún leysir önnur.

Athyglisvert er, að yfirstéttin í landinu hyggst ekki taka neinn umtalsverðan þátt í að bera byrðar þjóðarsáttarinnar. Bankastjórar og bankaráðsmenn hyggjast til dæmis ekki draga neitt úr laxveiðiferðum, sem bornar eru uppi af vaxtamun, er nemur tvöföldum alþjóðastaðli.

Aukin stéttaskipting virðist vera innifalin í þjóðarsáttinni, alveg eins og hún felur í sér, að hvorki verði sagt upp búvörusamningi, né gerðar neinar tilraunir til að draga úr ríkisrekstri landbúnaðar, sem kostar neytendur tólf milljarða á ári og skattgreiðendur níu milljarða.

Ef raunverulega syrti í álinn, mundi þjóðin vafalaust knýja fram, að yfirstéttin tæki líka á sig byrðar af samdrætti og að velferðarkerfi gæludýragreina viki fyrir verndun grundvallaratriðanna í velferðarkerfi almennings. Samkvæmt þjóðarsátt er ekki komið að slíku enn.

Þetta má hafa til marks um, að þjóðfélagið er ekki komið nálægt hruni af völdum kreppunnar. Jafnvel þótt þorski fækkaði enn og kreppan ykist, eru til ónotuð vopn í lífsbaráttu þjóðarinnar. Þegar þau verða gripin, er það merki um, að kreppukornið sé orðið að alvörukreppu.

Þótt þjóðarsátt sé betri en engin sátt, eru ýmsar hættur fólgnar í að velja leið, sem eykur stéttaskiptingu, minnkar öryggisnet velferðar, dregur úr kjarki fólks og minnkar líkur á, að það afli sér menntunar í framtíðargreinum. Þessi leið laskar sjálfa þjóðfélagsgerðina.

Kjósendur allra flokka og félagsmenn flestra almannasamtaka á borð við stéttarfélögin hafa ákveðið að þessar hættulegu leiðir og ekki aðrar skuli vera farnar til að verjast kreppunni. Almenningur hefur ákveðið að þola, að fokdýru velferðarkerfi gæludýranna verði áfram hlíft.

Ef í ljós kemur, að herkostnaður sé meiri af leiðinni, sem valin var með þjóðarsátt, en af öðrum álitlegum leiðum, getur þjóðin engum öðrum en sjálfri sér um kennt.

Jónas Kristjánsson

DV