Tvö ljón eru í vegi vestrænna ráðamanna, sem stefna að því að fá íþróttamenn ríkja sinna til að láta ólympíuleikana í Moskvu eiga sig. Í fyrsta lagi vilja íþróttamenn ekki neita sér um þáttökuna. Í öðru lagi skortir stað, sem gæti fyrirvaralaust komið í stað Moskvu.
Mikill fjöldi vestrænna íþróttamanna hefur lagt hart að sér við æfingar undanfarna mánuði og misseri. Þessi þjálfun byggist á drauminum um árangur á ólympíuleikunum. Íþróttafólkið mun verða fyrir miklum vonbrigðum, ef því verður beint eða óbeint meinuð ferðin til Moskvu.
Vesturlönd geta ekki boðið íþróttafólki sínu upp á neina eina borg sem gæti komið í stað Moskvu. Í borgum eins og Montreal og München hefur gistiaðstöðu fyrri ólympíuleika fyrir löngu verið breytt í íbúðir heimamanna. Og tíminn er of skammur til að byggja upp nýja aðstöðu.
Eina færa leiðin til að hunza hina pólitísku harðstjóra í Moskvu er að halda ólympíuleika þessa árs á mörgum stöðum í senn. Í því fælist um leið viðurkenning á, að tækni nútímans hefur gert úrelt hið hefðbundna form, að ein borg sé gestgjafi allra ólympiuleikanna.
Það eru milli 100 og 200 þúsund manns, sem horfa beint á ólympíuleikana hverju sinni. Þetta er bara dropi í haf þeirra 500 milljón manna, sem horfa á ólympíuleikana í sjónvarpi. Staðreyndin er sú að leikarnir hafa þegar að verulegu leyti færzt inn í sjónvarpið.
Brezka tímaritið Economist hefur lagt til, að sjónvarpsstöðvar Vesturlanda sameinist um beina og samtengda útsendingu frá uppreisnar-ólympíuleikum þeirra þjóða, sem geta ekki sætt sig við framkomu keisaranna í Moskvu heima fyrir og erlendis.
Velja mætti hverjum þætti þessara ólympíuleika eða heimsleika stað með hliðsjón af áhugamálum heimamanna. Kapphlaupin gætu farið fram í Bandaríkjunum, sundið í Ástralíu, fimleikarnir í Japan, pólóið í Pakistan og boxið í Zaire, svo að nokkur dæmi séu nefnd.
Skipulag ólympíuleikanna verður gífurlega mikið léttara, ef þeim er dreift á marga staði og sjónvarpið látið sjá um að tengja þá. Fjölmargar borgir geta fyrirvaralítið hýst einn þátt ólympíuleikanna, þótt þær geti ekki hýst alla leikana. Þetta er raunar eina færa leiðin.
Ef að minnsta kosti 20 vestræn ríki taka saman höndum um að halda eigin heimsleika undir nafni Ólympíu, mun athygli vestrænna sjónvarpsnotenda beinast mun meira að þeim en leikunum í Moskvu. Uppreisnarleikarnir mundu skyggja á Moskvuleikana.
Ef 20 vestræn ríki gera þetta, mun andstaða ólympíunefnda þeirra hrynja. Alþjóða ólympíunefndin mun klofna í vestrænan og austrænan hluta. En þannig fer líka fyrir mönnum, sem ekki hafa vit á að læra lexíuna frá ólympíuleikum Hitlers í Berlín árið 1936.
Þessi uppreisn er nauðsynleg. Hún er eina leiðin til að sýna sovézkum almenningi hina takmarkalausu fyrirlitningu, sem við höfum á Brezhnev og glæpaflokki hans. Hún er eina leiðin til að sýna heimsvaldasinnum og fangabúðastjórum austurs, að þeir hafa gengið of langt.
Síðan er hægt að athuga fram til ársins 1984, hvort ólympíuleikarnir haldi áfram í þessu nýja formi sjónvarpsleika á mörgum stöðum eða hvort byggja eigi upp varanlega aðstöðu í Olympíu á Grikklandi. Altjend hafa Moskvumenn endanlega kálað núverandi gerð leikanna.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið